Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að flokksmenn um allt land finni fyrir þrýstingi og skynji þau áhrif sem Panamaskjölin hafa á stöðu stjórnarflokkanna. Þetta kom fram í viðtali við þingmanninn í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Flokkurinn hafi fundað fyrir og eftir hádegi í dag þar sem niðurstaðan hafi verið sú að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fengi tækifæri til að koma með sína hlið á málinu.
„Staðreyndin er sú að við finnum auðvitað það sama og er hér úti á Austurvelli, Framsóknarmenn úti um allt land hafa áhyggjur. Við höfum eyru eins og allir aðrir.“
Ásmundur Einar segir flokkinn munu ræða vantrauststillöguna stjórnarandstöðunnar á hendur ríkisstjórninni og forsætisráðherra í þingflokknum. Enins og staðan sé nú þá styðji allir flokksmenn forystu Framsóknar og ríkisstjórnina sem hafi unnið góð verk á mörgum sviðum.
„Ég væri óheiðarlegur ef ég segði það ekki hreint út að auðvitað hefur það áhrif hvernig við skynjum, hvernig hljóðið er í Framsóknarmönnum úti um allt land, hvenrig hljóðið er hér á Austurvelli og það er auðvitað eitthvað sem verður rætt í okkar þingflokki þegar rætt verður hvernig við bregðumst við vantrauststillögunni,“ segir Ásmundur Einar.
„Forysta flokksins og núverandi ríkisstjórn hefur eins og staðan er í dag fullan stuðning.“
Viðtalið við Ásmundur Einar má sjá eftir fimm mínútur í spilaranum að ofan.
