Fréttastofan hefur upplýsingar um að þungavigtarfólk í Sjálfstæðisflokknum hafi skorað á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrrverandi varaformann flokksins að gefa kost á sér á ný í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Þeirra á meðal er Bjarni Benediktsson formaður flokksins og fólk í kringum hann. Mun Þorgerður Katrín hafa gefið flokknum afsvar og er ekki á leið í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Þá hefur líka verið skorað á hana að gefa kost á sér fyrir Viðreisn en að mati margra ríma stjórnmálaskoðanir hennar betur með áherslum þess flokks. Þá hafa áhrifamenn innan Viðreisnar hvatt Þorstein Pálsson fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins um að gefa kost á sér fyrir flokkinn samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Þorsteinn hefur um langt árabil talað þvert gegn stefnu forystu Sjálfstæðisflokksins og gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn og báða ríkisstjórnarflokkanna fyrir að slíta endanlega aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Röng nálgun að tala um svik
Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins segir það ranga nálgun að tala um svik í þessu sambandi.
„Ég held að menn eigi ekkert að tala sviksemi í sambandi við það hvort menn séu í einum flokki eða öðrum. Ég get vel skilið ef menn telja sig geta náð betri árangri í sinni málefnabaráttu að þeir fara á aðrar vígstöðvar.“
Styrmir segir að það myndi styrkja Viðreisn mikið ef Þorgerður Katrín færi fram.
„Ef það eru réttar fréttir að Þorgerður Katrín ætli sér að fara í framboð fyrir Viðreisn þá er það auðvitað mikill styrkur fyrir þann flokk. Hún er mjög öflugur stjórnmálamaður. Ég sá oft á vettvangi Sjálfstæðisflokksins að hún hefur mikil áhrif á fólk með sínum málflutningi. Þannig að ef að það verður þá finnst mér það liggja í augum uppi að það mun efla Viðreisn mjög og þá er spurning hvernig Sjálfstæðisflokkurinn bregst við.“