Matur

Rófan nefnd appelsína norðursins

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Grillaður rófukubbur, forréttur hentar í hvaða veislu sem er.
Grillaður rófukubbur, forréttur hentar í hvaða veislu sem er. Fréttablaðið/Hanna

Gulrófan er vanmetið hráefni á Íslandi. Við ættum að borða hana í hvert mál. Hún er góð bæði hrá og elduð. Gult er líka nauðsynlegt fyrir tilfinningarnar og sköpunarstöðina,“ segir Áslaug Snorradóttir, ljósmyndari og matargúrú, sem töfrar fram smárétti með bragð, útlit og hollustu í huga.

Hún segir rófuna stundum nefnda appelsínu norðursins vegna þess hversu C-vítamínrík hún er. Smjörsoðnar rófur eru í uppáhaldi, þá er 100 grömmum af smjöri bætt í soðvatnið undir lokin.

Þemað hjá Áslaugu í dag er hádegislautarferð með fjögurra rétta rófumáltíð.

Hún breiðir úr hvítum dúk og raðar réttunum á diska eftir Bjarna Viðar Sigurðsson keramiker.

Hún hefur forsoðið rófurnar og grillað þær á grillpönnu með miklu smjöri, til að fá fram grilleffekt og góða sætu. Líka búið til pestó til að hafa með forréttinum.

Girnilegt fóður í lautarferð.

Pestó



Góð ólífuolía, helst með extra mikilli sól frá Sikiley

Kasjúhnetur

Basilíka

Mixað með töfrasprota.



Forrétturinn: Grillaður rófukubbur



Aflangur kubbur af rófu sem búið er að forsjóða og grilla á öllum hliðum

Pestó

Grænkálsspírur

Tómatur, grillaður

Raðað upp í þeirri röð sem að ofan greinir.

Grænt fyrir hjartað og gult fyrir tilfinningarnar og sköpunarstöðina. Vísir/Hanna

Grillaðir rófubitar á viðarteinungi



Rófubitar, grillaðir á alla kanta þræddir upp á viðarteinung

Nokkur grænkálsblöð, grilluð í smjöri á pönnu

1/2 sítróna, grilluð







Sól og sæla á grillpönnu.

 Eco-baunaspírur settar í bunka á disk og greinin með rófunum lögð ofan á. Grænkálinu dreift um diskinn og sítrónan lögð hjá.

„Spírurnar eru próteinbomba, grænkálið þrungið af bætiefnum og sítrónan gerbreytist grillunina,“ segir Áslaug.

 

 







"Í hádeginu er sól hæst á lofti, þá á maður að borða gult,“ segir Áslaug. Fréttablaðið/Hanna

Grilluð rófusnitta með reyktum makríl



1 sneið af rófu, forsoðin og grilluð

1 flak reyktur makríll

Lítill biti af rauðlauk

1 grein flöt steinselja

Nokkur skjaldfléttublóm

Nokkur krækiber

 

Rófan er sæt og makríllinn reyktur, því smella þau vel saman.

Makríllinn er skafinn af roðinu og settur ofan á hálfa rófusneiðina, rauðlaukurinn er saxaður og settur ofan á, steinseljan sett þar ofan á.

Skjaldfléttublómin eru bæði til skrauts, hollustu og bragðbætis og krækiberin líka.

 

Rófusteik með súmaki og kornhænueggjum Súmak er arabískt krydd, svo þessi réttur er með arabísku ívafi.

Rófusteik með súmaki og kornhænueggjum



1 grilluð rófusneið

Skvetta af ólífuolíunni góðu

Mínítómatar, gulir og grænir, (ræktaðir í Sólheimum, keyptir í Frú Laugu)

Súmak-krydd

Kornhænuegg (Keypt í Frú Laugu)

Graslaukur



Grillaða rófusneiðin er lögð á disk. Ólífuolíunni hellt yfir hana og út fyrir og gulum og grænum smátómötum dreift yfir diskinn, ýmist heilum eða hálfum. Kryddi og graslauk stráð yfir. Eggin höfð á kantinum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. ágúst 2016








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.