Um er að ræða í annað skiptið á þremur árum sem einstaklingur í blóma lífsins fellur frá vegna ofneyslu. Stúlka á táningsaldri lét lífið á heimili Gísla Pálma fyrir tæpum þremur árum og sá sem féll frá fyrir rúmri viku var vinur Gísla Pálma. Höfðu þeir verið saman að skemmta sér um kvöldið.
„Gísli Pálmi er rappari flottur og hæfileikaríkur. Í tvígang deyr fólk úr ofneyslu nálægt honum, sorglegra getur það ekki orðið. En hann ber ekki ábyrgð á því,“ segir Bubbi sem þekkir vel baráttuna við fíkniefnadjöfulinn frá sínum yngri árum. Mörg af hans vinsælustu lögum fjalla um neyslu fíkniefna og má nefna Afgan og Rómeó og Júlíu í því samhengi.
„Stundum hef ég fengið í hausinn að ungt fólk hafi dópað vegna þess að ég dópaði og maður gapir. Morfín skyld efni koma frá læknum sem skrifa þau út. Þetta efni sem hefur dregið ungt fólk til dauða undanfarin misseri eru efni sem koma frá læknum … Það er vandamál í sjálfu sér.“
Umrætt efni er fentanýl sem er verkjalyf, hundrað sinnum sterkara en morfín og fimmtíu sinnum sterkara en heróín ef það er mælt milligramm fyrir milligramm. Þrír hafa látist það sem af er ári vegna neyslu fentanýls.
Auk þess varð annar ungur maður, vinur Gísla Pálma og unga mannsins sem lét lífið, meðvitundarlaus á Menningarnótt. Gísli Pálmi mun hafa gert tilraunir til endurlífgunar áður en sjúkrateymi kom á vettvang. Frægt er að hann reyndi sömuleiðis að aðstoða ungu stúlkuna í nóvember 2013 en símtalið til Neyðarlínunnar var spilað í sjónvarpsþættinum Brestum árið 2014.
Hlusta má á Neyðarlínusímtalið hér að neðan.
Þá var það ofneysla MDMA sem varð stúlkunni að bana og þótti þá í mikilli tísku. Nú virðist fentanýl komið í skuggalega mikla dreyfingu.
„Þetta er mjög gott verkjalyf en hættulegar aukaverkanir. Það getur valdið mikilli hömlun á öndun upp í heila. Við stóra skammta þá hreinlega hættir einstaklingurinn að anda og fer þar af leiðandi í hjartastopp,“ segir Kolbeinn Guðmundsson, yfirlæknir Lyfjastofnunar.
Bubbi segist vona að Gísla Pálma beri gæfa til þess að verða edrú því lífið sé stórkostlegt án efna.