Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður hefur ákveðið að gefa kost á sér til að taka sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.
Sigrún Ingibjörg vinnur á lögmannsstofunni Rétti, en hún lauk nýverið L.L.M. námi við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Hún tók þátt í stúdentapólitík á yngri árum og var meðal annars formaður Vöku.
Í færslu á Facebook-síðu sinni segir að það skipti sig máli að íslenskt samfélag sé bæði opið og frjálslynt. „Þess vegna geng ég til liðs við Viðreisn og gef kost á mér í Suðvesturkjördæmi,“ segir Sigrún Ingibjörg.
Hún er fyrst til að tilkynna að hún bjóði sig fram fyrir Viðreisn í Suðvesturkjördæmi, en fullyrt er í frétt DV í dag að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, muni leiða lista Viðreisnar í kjördæminu. Hún starfar nú hjá Samtökum atvinnulífsins.

