Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum á dögunum tillögu um að stór hluti Laugavegarins, hluti Skólavörðustígs og Bankastrætið verði gert að göngugötusvæði á meðan Iceland Airwaves tónlistarhátíðin stendur yfir. Hátíðin hefst miðvikudaginn 2. nóvember og stendur til sunnudagsins 6. nóvember.
Von er á múg og margmenni til Íslands vegna hinnar árlegu tónleikahátíðar og má segja að tillagan sé orðin að árlegum viðburði en einnig var lokað fyrir bílaumferð í umræddum götum í fyrra. Um er að ræða Laugaveg frá Vatnsstíg að mótum Bankastrætis og Þingholtstrætis. Á Skólavörðustíg næði lokunin frá gatnamótunum við Bergstaðastræti og niður að Bankastræti.
Þeir sem lagt hafa leið sína í miðbæinn að sumri til ættu að vera orðnir lokununum vanir. Opnað var fyrir umferð í september en í fyrra voru fyrrnefndir götuhlutar gerðir að göngugötu bæði á Aðventunni og sömuleiðis á meðan Iceland Airwaves stóð. Á sjötta þúsund erlendra gesta sóttu hátíðina í fyrra sem fram fer í miðbæ Reykjavíkur.
Þar að auki er lagt til að Bankastræti verði lokað vegna viðburðar í tengslum við Airwaves og Pönksafn Íslands þann 2. nóvember frá kl. 15:00 til miðnættis. Á þeim tíma verður ekki hægt að aka niður Þingholtsstræti og Skólastræti að Bankastræti.
Tillagan var lögð fram í síðustu viku og bíður samþykktar borgarráðs.
