Ríkisstjórnin er fallin en ríkisstjórnarflokkarnir tveir fengu tuttugu og níu þingmenn kjörna í Alþingiskosningunum í gær af sextíu og þremur. Að minnsta kosti þrjá flokka þarf til að mynda nýja meirihlutastjórn á Alþingi.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut langflest atkvæði eða 29 prósent en Samfylkingin var nálægt því að þurrkast út af þingi með 5,7 prósent atkvæða. Kjörsókn hefur aldrei verið minni.
Frambjóðendur höfðu safnast saman á kosningavökum flokkanna og fylgdust með þegar fyrstu tölur voru birtar. Fyrstu tölur komu úr Suðurkjördæmi fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Síðustu tölur bárust hins vegar ekki fyrr um klukkan níu í morgun. Þá var ljóst að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væri fallin.
Flokkarnir höfðu fyrir kosningar samtals 38 þingmenn en hafa nú 29. Björt framtíð hlaut 7,2% atkvæða, Framsóknarflokkurinn 11,5% atkvæða, Viðreisn 10,5%, Sjálfstæðisflokkurinn 29%, Píratar 14,5%, Samfylkingin 5,7% og Vinstri-grænir 15,9% en aðrir flokkar fengu 5,7% atkvæða.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk flesta þingmenn kjörna eða 21. Næstir komu Píratar og Vinstri grænir með 10 þingmenn hvor. Framsóknarflokkurinn fékk átta þingmenn kjörna. Viðreisn fékk 7 þingmenn kjörna. Björt framtíð 4 en Samfylkingin 3. Allir þrír þingmenn Samfylkingarinnar eru þingmenn landsbyggðarkjördæma en og eru Oddný Harðardóttir formaður flokksins og Logi Einarsson varaformaður flokksins.
Kjörsókn var 79,2% en það er minnsta þátttaka í alþingiskosningum frá lýðveldisstofnun en hún var 81,4% í síðustu Alþingiskosningum.

