„Ég er ekki alveg viss um að þjóðin sé að kalla eftir fimm flokka stjórn. Þá værum við að ganga inn í Píratabandalagið. Það hugnast mér nú ekki alveg,“ sagði Benedikt þá í viðtali á Stöð 2.
Nú er komið annað hljóð í strokkinn því Benedikt segist ganga bjartsýnn til fimm flokka samstarfs. „Maður er smám saman að átta sig á því að kosningarnar fóru á ákveðinn veg. Eftir því sem leiðir lokast þá verður maður að opna á aðrar dyr.“

Birgitta segir að jafnframt gangi gróusögur um að óvild sé á milli hennar og Katrínar Jakobsdóttur en ekkert geti verið fjær sannleikanum. „Það er engin óvild neins staðar. Allir stjórnarandstöðuflokkarnir unnu mjög náið saman á síðasta kjörtímabili. Það var frekar skýrt fyrir kosningar að það voru nokkur aðaláherslumál sem allir voru sammála um að þyrfti að ganga í.“
Katrín Jakobsdóttir lá undir feldi í gær eftir að hafa fundað með formönnum allra flokka á Alþingi í gær. Fréttablaðið greindi frá því á fimmtudag að nokkrir þingmenn Vinstri grænna virtust spenntari fyrir samstarfi við Framsóknarflokkinn en Viðreisn og teldu meiri málefnahljómgrunn á milli flokkanna. Síðan hefur margt skýrst en Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti því yfir eftir fundinn með Katrínu á fimmtudag að hann hefði verulegar efasemdir um að fimm flokka stjórn gæti starfað.
Búist er við því að draga muni til tíðinda í stjórnarmyndunarviðræðum í dag og formenn flokkanna hittist og fundi.