Stefanía segir að ljóst sé að eftir upp úr slitnaði úr viðræðum á milli VG og annarra flokka hafi möguleikunum fækkað, miðjuflokkarnir séu í lykilstöðu.
„Það er ljóst að í stjórnarmyndunarferlinu hafa miðjuflokkar nokkurn veginn í hendi sér hvernig fer, oftast nær. Það hefur bara gerst einu sinni að það sé mynduð ríkisstjórn af flokkunum sem liggja lengst til vinstri og lengst til hægri,“ segir Stefanía.
Þar horfir Stefanía helst til Framsóknarflokksins sem beðið hefur á hliðarlínunni á meðan miðjuflokkarnir Björt framtíð og Viðreisn hafa tekið þátt í viðræðum.

„Þá finnst mér að það hljóti að blasa við að Framsóknarflokkurinn sem er hinn hefðbundni flokkur í miðju flokkakerfisins sé aftur orðinn líklegur til að koma að ríkisstjórn en af var látið í upphafi,“ segir Stefanía.
Óvíst er hvað Katrín gerir nú en Stefanía segir að hún hafi þann möguleika að koma Framsóknarflokkinum inn í viðræður, annaðhvort í vinstri stjórn í stað Viðreisnar eða í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum þrátt fyrir að síðari kosturinn hugnist flokksmönnum VG ekki.
Ljóst sé þó að leiðtogar flokkanna þurfi nú að fara að slá af sínum ýtrustu kröfum eftir tvær misheppnaðar tilraunir til myndunar ríkisstjórnar. Þetta viti reyndari stjórnmálamenn.
„Það held ég að þessi reyndari stjórnmálamenn átti sig á og þeir finni þá að það verði auðveldara að selja sínum stuðningsmönnum að koma á praktískri stjórn til að koma framfaramálum í framkvæmd.“