Menntaskólinn í Skálholti Stefán Pálsson skrifar 15. janúar 2017 11:00 Á þessarri gömlu teikningu sjást djörf áform um Menntaskólann í Reykjavík. Árið 1846 tók Lærði skólinn eða Latínuskólinn til starfa í Reykjavík í glænýju húsi, sem þá var stærsta bygging á Íslandi. Menntaskólinn í Reykjavík miðar stofnár sitt yfirleitt við þessi tímamót, þótt sumir vilji halda því til haga að skólinn í Lækjargötu sé í raun framhald af eldri skólum sem starfræktir voru á Bessastöðum, Hólavöllum og í Skálholti allt frá elleftu öld. Óhætt er að segja að dönsk yfirvöld hafi byggt af metnaði yfir skólann í Reykjavík. Húsinu var ætlað að hýsa allt að hundrað nemendur, sem talið var ærið nóg til langrar framtíðar, enda tilgangurinn með slíkri skólastofnun einvörðungu sú að framleiða embættismenn, einkum presta, sýslumenn og lækna. Fólksfjölgun og breytingar á samfélagsgerð leiddu með tímanum til þess að nemendum fjölgaði og stúlkur fengu jafnvel að setjast á skólabekk. Áhersla á latínu og grísku snarminnkaði, en raunvísindi og hin svokölluðu „yngri tungumál“ (enska, franska og þýska) urðu fyrirferðarmeiri á námsskránni. Árið 1904 var nafninu svo breytt í Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík, sem fljótlega var stytt í Menntaskólinn eða bara MR. Þrátt fyrir nemendafjölgunina og fjölbreyttari námsgreinar bar lítið á umræðum um húsnæðismál skólans. Reist var bókhlaða sunnan við skólahúsið og lítið íþróttahús þar fyrir aftan. Að öðru leyti sættu kennarar og nemendur sig við gamla húsið, enda mörg önnur brýnni verkefni í samfélaginu. Það var fyrst í tíð Jónasar Jónssonar frá Hriflu sem ráðherra menntamála að farið var að huga að húsakosti MR. Jónasi var löngum legið á hálsi fyrir að vera andsnúinn stofnunum í Reykjavík, en hann lét þó sinna brýnu viðhaldi. Jafnframt beitti hann sér fyrir því að heimavist yrði á ný komið fyrir í skólahúsinu og var það í samræmi við þá stefnu hans að skólinn skyldi aðgengilegur efnilegum sveitapiltum en ekki verða reykvískur elítuskóli borgarastéttarinnar. Það kom líka í hlut Hriflu-Jónasar að skipa nýjan rektor Menntaskólans. Úr ýmsum reynslumiklum kennurum skólans var að velja, en Jónas hafði annað í hyggju. Hann sótti til starfans ungan náttúrufræðikennara úr Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem var um þær mundir að fá leyfi til að útskrifa stúdenta. Rektorinn nýi, Pálmi Hannesson, var rétt um þrítugt. Hann hafði verið hallur undir jafnaðarstefnu en gerðist nú dyggur Framsóknarmaður og sat síðar á þingi og í bæjarstjórn fyrir flokkinn.Siðspilling á mölinni Það kom snemma í ljós að sýn Pálma rektors á skólastarfið var um margt önnur og ferskari en þeirra sem þar höfðu starfað í áratugi. Hann var frjálsari af ýmsum hefðum og óflekkaður af gildismati reykvískra broddborgara. Raunar hafði rektorinn ungi talsverðar efasemdir um hversu heilbrigt samfélagið væri á mölinni. Í ræðum rektors komu ítrekað fram áhyggjur af drykkjuskap nemenda, tóbaksreykingum, slæpingsskap og innihaldsrýru tómstundalífi. Að hans mati fullorðnuðust ungmenni of hratt, fengu ekki að njóta æskuáranna en tileinkuðu sér snemma ósiði þéttbýlisins. Var sú sýn í fullu samræmi við afstöðu Hriflu-Jónasar sem kappkostaði að byggja upp net héraðsskóla til sveita þar sem ungmenni gætu numið í guðsgrænni náttúrunni, laus úr sollinum. Á fjórða áratugnum, í heimskreppunni miðri, komu Menntskælingar sér upp afdrepi í Reykjadal inn af Hveragerði. Selið, eins og skálinn var fljótlega nefndur, varð vettvangur ótal skemmtiferða stúdenta og efldi þannig skólaandann. Rektor taldi þetta hins vegar bara fyrsta skrefið og óskaði eftir stærra landi frá ríkinu með það fyrir augum að skólinn starfrækti sitt eigið bú með hvers kyns landbúnaðarframleiðslu. Með tíð og tíma yrðu sveitastörfin svo hluti af námsskrá skólans og nemendur dveldu þar mun lengur en bara eina og eina helgi. Búskapardraumar rektors virtust hálfgerðir loftkastalar, þar til atburðir í alþjóðamálum beindu kastljósinu að húsnæðismálum skólans. Ísland var hernumið af Bretum vorið 1940 og fljótlega var skólahúsið gamla tekið í þjónustu stríðsrekstursins. Næstu tvö árin var MR að mestu starfræktur í glænýrri aðalbyggingu Háskólans. Óvissan um hvort og hvenær Bretarnir létu skólabygginguna aftur af hendi og samanburðurinn við nýtt og fullkomið háskólahúsið kom af stað umræðum um framtíðaraðstöðu skólans. Í fyrsta sinn var farið að tala á þeim nótum að gamli skólinn væri óhentugur og úreltur. Jónas Jónsson var með frumlega lausn á málinu. Hann skrifaði hugvekju í Tímann og lagði til að mistökin frá árinu 1786 yrðu leiðrétt, en þá var Skálholtsskóli fyrst fluttur til Reykjavíkur eftir að öll skólahúsin hrundu í Suðurlandsskjálftanum tveimur árum fyrr. Skömmu síðar gerði Pálmi rektor hugmyndina að sinni. Með því að flytja Menntaskólann í Skálholt mætti hrinda í framkvæmd draumnum um stórfelldan búrekstur samhliða skólastarfinu. Á nýja staðnum myndu allir nemendur búa á heimavist, sem myndi efla skólaandann og þroska skólapiltana – sem yrðu vel að merkja allt piltar, því á nýja staðnum yrðu engar stúlkur en Kvennaskólanum í Reykjavík þess í stað heimilað að útskrifa stúdenta. Ekki var þessari hugmynd Framsóknarmannanna tekið með neinum húrrahrópum af stúdentum og kennaraliði. Bentu ýmsir á að hvað sem sveitarómantík liði, væri Skálholt afleitur staður fyrir framhaldsskóla, enda bæði afskekktur og öfugt við héraðsskólana byði staðsetningin ekki upp á nýtingu jarðhita eða greiðan aðgang að raforku. En boltinn var farinn að rúlla og skyndilega virtist samstaða um að úrbóta væri þörf í húsnæðismálum Menntaskólans. Var hart tekist á um málið á næstu árum. Heimir Þorleifsson rakti þá sögu vel í verki sínu Sögu Reykjavíkurskóla og er einkum stuðst við frásögn hans í þessari grein.Einn skóli eða fleiri? Ný fræðslulöggjöf var tekin upp árið 1946 með landsprófi. Menntaskólinn var þar með styttur úr sex árum í fjögur, en fljótlega varð ljóst að fjölgun nemenda í framhaldsnámi yrði meiri en sem næmi styttingunni. Rektor og ráðherra menntamála, sósíalistinn Brynjólfur Bjarnason, voru sammála um að alltof dýrt yrði að kaupa upp hús í námunda við MR til stækkunar. Betra væri að byggja af metnaði þar sem plássið væri nægilegt. Í þessu skyni festi Nýsköpunarstjórnin kaup á landi Laugarness og skyldi skólahúsinu fundinn staður rétt norðan við núverandi húsnæði Listaháskólans. Á svipuðum slóðum hafði Sjómannadagsráð hug á að koma fyrir Dvalarheimili aldraðra sjómanna og gerði skipulagsstjóri ráð fyrir framtíðarstað bæjarsjúkrahúss Reykvíkinga á svæðinu. Um sama leyti voru settar fram hugmyndir um skólabyggingar á Golfskálahæð, á sömu slóðum og höfuðstöðvar Veðurstofunnar standa í dag. Þær teikningar gerðu ráð fyrir gríðarmiklu íþróttasvæði í tengslum við skólann, enda horfðu íslenskir skólamenn um þessar mundir mikið til bandarískra háskóla sem fyrirmynda og þeirrar íþróttaáherslu sem þar ríkti. Nýsköpunarstjórnin var framkvæmdaglöð með eindæmum en vannst ekki tími til að hefjast handa við smíði nýja skólans. Árið 1947 tók við ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sem reyndist mun aðhaldssamari. Gilti það ekki hvað síst um menntamálaráðherrann Eystein Jónsson sem taldi ódýrara að byggja í smærri skrefum innan gamla Menntaskólareitsins. Ekki skorti arkitektana þó metnaðinn þar heldur og til er stórkarlaleg hugmynd frá Einari Sveinssyni, húsameistara Reykjavíkurbæjar. Hún gerði ráð fyrir að gamla skólahúsið yrði fært úr stað og látið liggja meðfram Bókhlöðustíg, bókhlöðunni gömlu yrði hins vegar komið fyrir við Amtmannsstíginn en á grunni gamla skólans risi sex hæða ferlíki. Myndi það húsnæði duga menntskælingum höfuðborgarinnar til langrar framtíðar. Féllu hugmyndir af þessu tagi vel í geð hjá stúdentum og kennaraliði sem vildu halda skólanum miðsvæðis og á fornum slóðum. Enn varð stefnubreyting í málinu með stjórnarskiptum árið 1949. Björn Ólafsson, sem tók við ráðuneyti kennslumála, reyndist sammála rektor um skynsemi þess að flytja skólann. Þrýsti ríkið á um það að Reykjavíkurbær legði til landspildu, helst á Klambratúni en til vara á Skildinganesmelum, þar sem Hjónagarðar háskólastúdenta standa nú. Niðurstaðan, eftir nokkurt stapp, varð á árinu 1953 sú að nýr MR skyldi rísa í Hlíðahverfi, nánar tiltekið við Hamrahlíð. Teiknað var gríðarstórt skólahúsnæði ásamt heimavistum, íþróttasvæði, sundlaug og grasagarði. Þá var gert ráð fyrir rektorsbústað syðst á lóðinni. Rektorsbústaðurinn var þó eina mannvirkið sem reis samkvæmt þessum teikningum. Gegnir það í dag hlutverki skátaheimilis fyrir Hlíðarnar. Enn ein stjórnarskiptin komu í veg fyrir að draumur Pálma Hannessonar rættist. Bjarni Benediktsson tók við sem menntamálaráðherra, en hann var andsnúinn flutningum. Hinn nýi ráðherra leitaði álits kennarafundar á því á hvorum staðnum skólinn skyldi vera. Kennararnir völdu Lækjargötu og fól sú ákvörðun jafnframt í sér að einn eða fleiri nýir menntaskólar yrðu á næstu árum stofnaðir í Reykjavík, fyrst MH og því næst Menntaskólinn við Tjörnina. Hefði vafalaust margt þróast á annan veg ef þessar stofnanir hefðu myndað saman einn risaskóla í Reykjavík. Rektor reyndi sitt besta til að telja kennaraliðinu hughvarf. Hann óttaðist að loforð um miklar nýbyggingar á gamla MR-reitnum reyndust lítils virði og skólinn myndi búa við þrengsli næstu áratugina. Sú spá átti líka eftir að rætast. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Frægar í fantaformi Lífið „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Lífið Live in a fishbowl: Dr. Gunni alltaf á leiðinni til að drepa þig Tónlist Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira
Árið 1846 tók Lærði skólinn eða Latínuskólinn til starfa í Reykjavík í glænýju húsi, sem þá var stærsta bygging á Íslandi. Menntaskólinn í Reykjavík miðar stofnár sitt yfirleitt við þessi tímamót, þótt sumir vilji halda því til haga að skólinn í Lækjargötu sé í raun framhald af eldri skólum sem starfræktir voru á Bessastöðum, Hólavöllum og í Skálholti allt frá elleftu öld. Óhætt er að segja að dönsk yfirvöld hafi byggt af metnaði yfir skólann í Reykjavík. Húsinu var ætlað að hýsa allt að hundrað nemendur, sem talið var ærið nóg til langrar framtíðar, enda tilgangurinn með slíkri skólastofnun einvörðungu sú að framleiða embættismenn, einkum presta, sýslumenn og lækna. Fólksfjölgun og breytingar á samfélagsgerð leiddu með tímanum til þess að nemendum fjölgaði og stúlkur fengu jafnvel að setjast á skólabekk. Áhersla á latínu og grísku snarminnkaði, en raunvísindi og hin svokölluðu „yngri tungumál“ (enska, franska og þýska) urðu fyrirferðarmeiri á námsskránni. Árið 1904 var nafninu svo breytt í Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík, sem fljótlega var stytt í Menntaskólinn eða bara MR. Þrátt fyrir nemendafjölgunina og fjölbreyttari námsgreinar bar lítið á umræðum um húsnæðismál skólans. Reist var bókhlaða sunnan við skólahúsið og lítið íþróttahús þar fyrir aftan. Að öðru leyti sættu kennarar og nemendur sig við gamla húsið, enda mörg önnur brýnni verkefni í samfélaginu. Það var fyrst í tíð Jónasar Jónssonar frá Hriflu sem ráðherra menntamála að farið var að huga að húsakosti MR. Jónasi var löngum legið á hálsi fyrir að vera andsnúinn stofnunum í Reykjavík, en hann lét þó sinna brýnu viðhaldi. Jafnframt beitti hann sér fyrir því að heimavist yrði á ný komið fyrir í skólahúsinu og var það í samræmi við þá stefnu hans að skólinn skyldi aðgengilegur efnilegum sveitapiltum en ekki verða reykvískur elítuskóli borgarastéttarinnar. Það kom líka í hlut Hriflu-Jónasar að skipa nýjan rektor Menntaskólans. Úr ýmsum reynslumiklum kennurum skólans var að velja, en Jónas hafði annað í hyggju. Hann sótti til starfans ungan náttúrufræðikennara úr Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem var um þær mundir að fá leyfi til að útskrifa stúdenta. Rektorinn nýi, Pálmi Hannesson, var rétt um þrítugt. Hann hafði verið hallur undir jafnaðarstefnu en gerðist nú dyggur Framsóknarmaður og sat síðar á þingi og í bæjarstjórn fyrir flokkinn.Siðspilling á mölinni Það kom snemma í ljós að sýn Pálma rektors á skólastarfið var um margt önnur og ferskari en þeirra sem þar höfðu starfað í áratugi. Hann var frjálsari af ýmsum hefðum og óflekkaður af gildismati reykvískra broddborgara. Raunar hafði rektorinn ungi talsverðar efasemdir um hversu heilbrigt samfélagið væri á mölinni. Í ræðum rektors komu ítrekað fram áhyggjur af drykkjuskap nemenda, tóbaksreykingum, slæpingsskap og innihaldsrýru tómstundalífi. Að hans mati fullorðnuðust ungmenni of hratt, fengu ekki að njóta æskuáranna en tileinkuðu sér snemma ósiði þéttbýlisins. Var sú sýn í fullu samræmi við afstöðu Hriflu-Jónasar sem kappkostaði að byggja upp net héraðsskóla til sveita þar sem ungmenni gætu numið í guðsgrænni náttúrunni, laus úr sollinum. Á fjórða áratugnum, í heimskreppunni miðri, komu Menntskælingar sér upp afdrepi í Reykjadal inn af Hveragerði. Selið, eins og skálinn var fljótlega nefndur, varð vettvangur ótal skemmtiferða stúdenta og efldi þannig skólaandann. Rektor taldi þetta hins vegar bara fyrsta skrefið og óskaði eftir stærra landi frá ríkinu með það fyrir augum að skólinn starfrækti sitt eigið bú með hvers kyns landbúnaðarframleiðslu. Með tíð og tíma yrðu sveitastörfin svo hluti af námsskrá skólans og nemendur dveldu þar mun lengur en bara eina og eina helgi. Búskapardraumar rektors virtust hálfgerðir loftkastalar, þar til atburðir í alþjóðamálum beindu kastljósinu að húsnæðismálum skólans. Ísland var hernumið af Bretum vorið 1940 og fljótlega var skólahúsið gamla tekið í þjónustu stríðsrekstursins. Næstu tvö árin var MR að mestu starfræktur í glænýrri aðalbyggingu Háskólans. Óvissan um hvort og hvenær Bretarnir létu skólabygginguna aftur af hendi og samanburðurinn við nýtt og fullkomið háskólahúsið kom af stað umræðum um framtíðaraðstöðu skólans. Í fyrsta sinn var farið að tala á þeim nótum að gamli skólinn væri óhentugur og úreltur. Jónas Jónsson var með frumlega lausn á málinu. Hann skrifaði hugvekju í Tímann og lagði til að mistökin frá árinu 1786 yrðu leiðrétt, en þá var Skálholtsskóli fyrst fluttur til Reykjavíkur eftir að öll skólahúsin hrundu í Suðurlandsskjálftanum tveimur árum fyrr. Skömmu síðar gerði Pálmi rektor hugmyndina að sinni. Með því að flytja Menntaskólann í Skálholt mætti hrinda í framkvæmd draumnum um stórfelldan búrekstur samhliða skólastarfinu. Á nýja staðnum myndu allir nemendur búa á heimavist, sem myndi efla skólaandann og þroska skólapiltana – sem yrðu vel að merkja allt piltar, því á nýja staðnum yrðu engar stúlkur en Kvennaskólanum í Reykjavík þess í stað heimilað að útskrifa stúdenta. Ekki var þessari hugmynd Framsóknarmannanna tekið með neinum húrrahrópum af stúdentum og kennaraliði. Bentu ýmsir á að hvað sem sveitarómantík liði, væri Skálholt afleitur staður fyrir framhaldsskóla, enda bæði afskekktur og öfugt við héraðsskólana byði staðsetningin ekki upp á nýtingu jarðhita eða greiðan aðgang að raforku. En boltinn var farinn að rúlla og skyndilega virtist samstaða um að úrbóta væri þörf í húsnæðismálum Menntaskólans. Var hart tekist á um málið á næstu árum. Heimir Þorleifsson rakti þá sögu vel í verki sínu Sögu Reykjavíkurskóla og er einkum stuðst við frásögn hans í þessari grein.Einn skóli eða fleiri? Ný fræðslulöggjöf var tekin upp árið 1946 með landsprófi. Menntaskólinn var þar með styttur úr sex árum í fjögur, en fljótlega varð ljóst að fjölgun nemenda í framhaldsnámi yrði meiri en sem næmi styttingunni. Rektor og ráðherra menntamála, sósíalistinn Brynjólfur Bjarnason, voru sammála um að alltof dýrt yrði að kaupa upp hús í námunda við MR til stækkunar. Betra væri að byggja af metnaði þar sem plássið væri nægilegt. Í þessu skyni festi Nýsköpunarstjórnin kaup á landi Laugarness og skyldi skólahúsinu fundinn staður rétt norðan við núverandi húsnæði Listaháskólans. Á svipuðum slóðum hafði Sjómannadagsráð hug á að koma fyrir Dvalarheimili aldraðra sjómanna og gerði skipulagsstjóri ráð fyrir framtíðarstað bæjarsjúkrahúss Reykvíkinga á svæðinu. Um sama leyti voru settar fram hugmyndir um skólabyggingar á Golfskálahæð, á sömu slóðum og höfuðstöðvar Veðurstofunnar standa í dag. Þær teikningar gerðu ráð fyrir gríðarmiklu íþróttasvæði í tengslum við skólann, enda horfðu íslenskir skólamenn um þessar mundir mikið til bandarískra háskóla sem fyrirmynda og þeirrar íþróttaáherslu sem þar ríkti. Nýsköpunarstjórnin var framkvæmdaglöð með eindæmum en vannst ekki tími til að hefjast handa við smíði nýja skólans. Árið 1947 tók við ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sem reyndist mun aðhaldssamari. Gilti það ekki hvað síst um menntamálaráðherrann Eystein Jónsson sem taldi ódýrara að byggja í smærri skrefum innan gamla Menntaskólareitsins. Ekki skorti arkitektana þó metnaðinn þar heldur og til er stórkarlaleg hugmynd frá Einari Sveinssyni, húsameistara Reykjavíkurbæjar. Hún gerði ráð fyrir að gamla skólahúsið yrði fært úr stað og látið liggja meðfram Bókhlöðustíg, bókhlöðunni gömlu yrði hins vegar komið fyrir við Amtmannsstíginn en á grunni gamla skólans risi sex hæða ferlíki. Myndi það húsnæði duga menntskælingum höfuðborgarinnar til langrar framtíðar. Féllu hugmyndir af þessu tagi vel í geð hjá stúdentum og kennaraliði sem vildu halda skólanum miðsvæðis og á fornum slóðum. Enn varð stefnubreyting í málinu með stjórnarskiptum árið 1949. Björn Ólafsson, sem tók við ráðuneyti kennslumála, reyndist sammála rektor um skynsemi þess að flytja skólann. Þrýsti ríkið á um það að Reykjavíkurbær legði til landspildu, helst á Klambratúni en til vara á Skildinganesmelum, þar sem Hjónagarðar háskólastúdenta standa nú. Niðurstaðan, eftir nokkurt stapp, varð á árinu 1953 sú að nýr MR skyldi rísa í Hlíðahverfi, nánar tiltekið við Hamrahlíð. Teiknað var gríðarstórt skólahúsnæði ásamt heimavistum, íþróttasvæði, sundlaug og grasagarði. Þá var gert ráð fyrir rektorsbústað syðst á lóðinni. Rektorsbústaðurinn var þó eina mannvirkið sem reis samkvæmt þessum teikningum. Gegnir það í dag hlutverki skátaheimilis fyrir Hlíðarnar. Enn ein stjórnarskiptin komu í veg fyrir að draumur Pálma Hannessonar rættist. Bjarni Benediktsson tók við sem menntamálaráðherra, en hann var andsnúinn flutningum. Hinn nýi ráðherra leitaði álits kennarafundar á því á hvorum staðnum skólinn skyldi vera. Kennararnir völdu Lækjargötu og fól sú ákvörðun jafnframt í sér að einn eða fleiri nýir menntaskólar yrðu á næstu árum stofnaðir í Reykjavík, fyrst MH og því næst Menntaskólinn við Tjörnina. Hefði vafalaust margt þróast á annan veg ef þessar stofnanir hefðu myndað saman einn risaskóla í Reykjavík. Rektor reyndi sitt besta til að telja kennaraliðinu hughvarf. Hann óttaðist að loforð um miklar nýbyggingar á gamla MR-reitnum reyndust lítils virði og skólinn myndi búa við þrengsli næstu áratugina. Sú spá átti líka eftir að rætast.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Frægar í fantaformi Lífið „Mig langar að prófa nýja villtari hluti en konan ekki“ Lífið Live in a fishbowl: Dr. Gunni alltaf á leiðinni til að drepa þig Tónlist Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira