Þau tuttugu kíló af hassi sem fundust um borð í Polar Nanoq eru metin á 228 milljónir króna sé miðað við götuverð á fíkniefninu í Nuuk. Hassið gæti þó verið verðmætara í fámennari byggðalögum Grænlands. RÚV fjallar um málið en fyrst er greint frá því í grænlenskum fjölmiðlum.
Skipverjinn á Polar Nanoq sem talinn er tengjast fíkniefnafundinum var úrskurðaður í gæsluvarðhald seint um kvöld á fimmtudag vegna málsins. Lögreglan fann efnin við leit í skipinu eftir að það kom í land vegna rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur.
Hans Enoksen, ráðherra sjávarútvegs og dýraveiða á Grænlandi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hótar að grípa til aðgerða gegn útgerðum verði áhafnir á skipum þeirra uppvísar að því að smygla fíkniefnum til Grænlands. Þær verði að ná tökum á vandamálinu eða eiga á því hættu að missa veiðileyfi sitt. Hann segir það koma til greina að herða reglugerðir er varða veiðar þar í landi.
Fram kemur í umfjöllun grænlenskra miðla að samkvæmt skýrslu grænlensku heimastjórnarinnar frá því í fyrra kosti grammið af hassi á milli 700 til 1000 danskar krónur.
Því sé verðmæti hassins sem fannst um borð í Polar Nanoq um 14 milljónir danskra króna, eða því sem nemur 228 milljónum íslenskra króna.

