Að þessu sinni eru Þjóðverjarnir að þróa stýrða eldflaug sem nýtist vel til að granda skipum og ógnar vopnaþróunin innrásinni í Ítalíu.
SE4 er mjög jákvætt skref fram á við í seríu sem hefur virst föst í sama farinu. Hann er opnari en fyrri leikir seríunnar. Borðin eru stór og það eru yfirleitt margar leiðir til að nálgast lausnir á verkefnum leiksins, sem eykur endurspilunargildi.
Það borgar sig vel að kíkja á æfingasvæðið og fá tilfinningu fyrir fjarlægðum og því hvernig vindurinn og þyngdaraflið hefur áhrif á ferðalag byssukúlna.
Eitt sem fer í taugarnar á mér varðandi vindinn. Í sjónauka riffla er hægt að sjá úr hvaða átt hann kemur og hvað hann er sterkur, en það er pirrandi að horfa upp á það að byssukúlan muni fara einhverja þrjá metra til vinstri á 200 metrum vegna vindsins, en það er enginn vindur í leiknum sjálfum. Tré eru kyrr og stráin hreyfast ekki heldur.
Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinum tölvuleik þar sem vindurinn virkaði raunverulegur og hafði áhrif á umhverfið. (Kannski Witcher 3) Í Sniper Elite myndi slíkt þjóna miklum tilgangi og gera mikið fyrir leikinn. Þá finnst mér eins og vindurinn hafi allt of mikil áhrif á byssukúlur í leiknum.

Ég hafði ekki áttað mig á því hvað það getur verið nytjasamt að sparka vel í góða ljósavél. Oftar en ekki er það besta í stöðunni í SE4 að finna ljósavél á góðum stað, sparka duglega í hana svo hún fari að hökta verulega og nota óhljóðinn til að fela byssuskotin. Frá þeim stað má svo skjóta alla Nasista í færi, án þess að aðrir verði þess varir.
Það er ýmislegt annað sem hægt er að nota til að fela hvellinn sem kemur úr rifflinum, eins og flugvélar, báta og sprengingar, en ljósavélarnar hafa reynst mér vel. Héðan í frá mun ég sparka í allar ljósavélar sem ég sé.
Gervigreind nasistanna í SE4 er ekki upp á marga fiska. Það er hægt að skjóta hermann við hliðina á öðrum. Sá sem lifði af, fer í felur í smá stund og svo leitar hann í nokkrar sekúndur áður en hann hugsa: „Hvað er ég aftur að gera?“. Þá fer hann aftur í sína hefðbundnu stöðu.
Byssur og annars konar uppfærslur eru keyptar með gjaldmiðli sem spilarar fá fyrir að safna reynslu og hækka í tign. Þar að auki er hægt að gera vopn betri með því að uppfylla ákveðin skilyrði, eins og að skjóta X marga nasista úr ákveðinni fjarlægð og að skjóta frá mjöðminni og þess háttar.
Í SE4 er hægt að skjóta með rifflum án þess að nota kíkirinn með því að ýta á miðunar-takkan, en ekki af fullum krafti. Það reynist mjög vel í styttri vegalengdum.
Þá geta vinir keppt gegn hvorum öðrum og leyst verkefni saman í netspilun SE4.
Leikurinn lítur vel út, en það er eitthvað við grafíkina. (Spilaði á PS4) Hún er alls ekki framúrskarandi og SE4 lítur stundum að vissu leyti út eins og gamall leikur en stundum er hann stór glæsilegur.
Þegar öllu er á botninn hvolft er Sniper Elite 4: Italia skemmtilegur og góður leikur sem enginn aðdáandi Sniper Elite seríunnar (og líklega margir aðrir) ætti að láta fram hjá sér fara. Það er einstaklega gefandi og gaman að ná góðum skotum á jafnvel 500 metra færi og sömu sögu má segja af því að spila með nasista. Að laða þá inn í gildrur og leysa verkefni á frumlegan hátt.
SE4 gefur spilurum tólin til að leika sér og gera tilraunir og það virkar vel.