Lögregla í Trípólí, höfuðborg Líbýu, handtók í dag föður árásarmannsins sem sprengdi sig í loft upp í anddyri Manchester Arena á mánudagskvöldið. Fréttastofur Reuters og BBC greina frá.
Þá hafa samtals fimm verið handteknir í tengslum við árásina, einn í gær og fjórir í dag. Þar á meðal eru tveir bræður árásarmannsins, Ismail og Hashem Abedi, auk föðurins, Ramadan Abedi. Í frétt Reuters kemur fram að Hashem sé grunaður um tengsl við hryðjuverkasamtökin ISIS. Þá gerði lögregla í Manchester húsleit í íbúð í miðborg Manchester í dag vegna málsins.
Á blaðamannafundi lögreglunnar síðdegis í dag kom fram að lögregla leitaði nú að sprengjugerðarmanni en Abedi er talinn hafa tengst neti hryðjuverkamanna. Þá er einnig talið að hann hafi verið nokkurs konar burðardýr fyrir sprengjuna sem notuð var en 22 létust í árásinni.
