„Fannst bæði kjánalegt og óþægilegt að vera innanum vopnaða menn á matsölustað, mátti svo hafa þessa menn á næsta borði á meðan ég át mitt,“ segir Guðmundur, en hann vakti athygli í tíð Reynis Traustasonar á DV fyrir bloggskrif sín á vef DV, en þar kallaði hann sig Fjallkóng. Guðmundur kallar ekki allt ömmu sína en honum þótti þetta síður en svo við hæfi.
Færsla Guðmundar hefur vakið nokkra athygli á Facebook en hún kemur inná mikið hitamál sem er ákvörðun Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra að vopnaðir sérsveitarmenn séu til staðar og sýnilegir á fjöldasamkomum. Boðað hefur verið til mótmæla vegna þeirrar ákvörðunar á morgun.

„Ef einhver ætlar að reyna að bera þetta saman við löggur í útlöndum stenst það ekki, það var miklu meiri Rambóbragur á þessum vopnabúnaði en gerist hjá borgarlöggum,“ segir Guðmundur: „Það ætti að banna fjöldasamkomur á landinu ef ástandið er orðið svo skuggalegt að menn getir ekki borðað án byssu.“
Vígbúnaður á veitingahúsum á ekki að eiga sér stað.“
Guðmundur ítrekar þetta í samtali við Vísi. Það er hálf óþægilegt að detta inní Múlakaffi, líkt og alla hina dagana, og vera á eftir vopnuðum mönnum í röðinni.
„Þetta skapar manni kannski ekki óöryggi. En, hver segir að maður eigi að treysta þessum mönnum? Yfirmaður þeirra hefur hótað því að drepa mann. Undirmenn hans á næsta borði. Ég veit það ekki,“ segir Guðmundur sem telur að Jóhannes vert á Múlakaffi eigi að banna vopnaburð þar inni.
„Væri nokkuð óeðlilegt við það að vopnaburður sé bannaður inni á matsölustöðum? Ég get ekki séð það. Þetta hefur ekkert með öryggi okkar að gera. Ríkislögreglustjóri hefur sagt að það þurfi að vopnavæða lögregluna vegna útlendinga, ég get ekki séð, þó það vinni þarna útlendingar í eldhúsinu, að þetta séu háskalegar slóðir.“