Steve King, þingmaður repúblikana í fulltrúadeildinni, kennir fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, um skotárásina í gær þar sem Steve Scalise háttsettur þingmaður repúblikana var skotinn. BBC greinir frá.
King segir að Obama hafi ýtt undir átök í bandarísku samfélagi með því að skapa óeiningu innan þeirra. Hann hafi einbeitt sér að því sem geri Bandaríkjamenn ólíka í stað þess að einblína á það sem sameini þá.
Scalise gekkst undir þriðju aðgerðina í morgun og heimsótti Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hann í morgun. Skotárásin hefur vakið stjórnmálamenn í Washington til umhugsunar um orðræðu í bandarískum stjórnmálum.
Margir demókratar hafa að sama skapi ásakað Trump um aukinn hita í bandarískum stjórnvöldum og fyrir að ala á sundrung innan bandarísku þjóðarinnar með orðum sínum og háttalagi. Talsmenn forsetans hafa þvertekið fyrir að nokkra ábyrgð megi finna í gjörðum forsetans.
Þvert á móti hefur sjónvarpsmaðurinn Sean Hannity, hjá sjónvarpsstöðinni Fox, ásakað demókrata um að hafa „búið til skrímslu úr repúblikönum“ með orðræðu sinni.
Í ljós kom í gær að árásarmaðurinn, sem ber nafnið James T. Hodgkinson, hafi eitt sinn verið sjálfboðaliði fyrir kosningabaráttu demókratans Bernie Sanders. Sanders fordæmdi árásina í gær og sagði hana fyrirlitlega.
Eftir árásina sameinuðust forsvarsmenn beggja flokka í því að fordæma árásina og virtist í gær ríkja mikil samhugur meðal manna í Washington.

