Uppfært 23:30
Lítið jökulhlaup stendur nú yfir í Múlakvísl þar sem vatn hefur aukist mikið í dag. Víðir Reynisson, verkefnafulltrúi almannavarna á Suðurlandi, hefur fylgst með ánni í kvöld og hann segist hafa séð mikinn mun á henni frá því í dag. Hann segir mikla brennisteinslykt bera af ánni.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur straumurinn í ánni aukist í kvöld en rafleiðnin hefur verið stöðug. Rafleiðni segir til um magn jarðhitavatns í ánni. Töluvert er af hverum undir Mýrdalsjökli þar sem bæði vatn úr hverunum og bræðsluvatn safnast saman.
Þrátt fyrir að straumurinn sé að aukast eru vatnshæðarmælingar Veðurstofunnar stöðugar og þýðir það að líklega sé áin að grafa undan sér.
Áfram verður fylgst með framvindu mála á svæðinu í nótt, en búið er að loka vegaslóðum sem að liggja upp með ánni svo fólk sé ekki þar á ferðinni. Erfitt er að segja á þessari stundu hvort að hlaupið verði stærra, eða hvort að flæðið í ánni muni minnka. Bæði hefur gerst áður.
Smáhlaup hafið í Múlakvísl: Erfitt að segja til um framvinduna

Tengdar fréttir

Aukin hætta á jökulhlaupi í Múlakvísl
Undanfarna daga hefur rafleiðni í Múlakvísl farið jafnt og þétt hækkandi.

Degi styttra í næsta gos
Aukin hætta er á jökulhlaupi í Múlakvísl og á Mýrdalssandi eftir snarpan jarðskjálfta í Kötlu í fyrrakvöld.