
Davíð segir að hingað til hafi viðurlög við brotum jafnan falið í sér fjársektir sem hafi hlaupið á milli hundrað til tvö hundruð þúsunda króna. „Þú sérð til dæmis utanvegaakstur í Kverkfjalli í fyrra. Það var eitthvað á annað hundrað þúsund,“ segir hann.
Helgi Gíslason, hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, segir skemmdirnar vegna utanvegaakstursins verulegar. „Það verður kostnaðarsamt að laga þetta af því að þetta þarf allt að laga með höndunum. Það er ekki hægt að fara með nein tæki þarna upp til að laga þetta. Enda er svo sem ekki æskilegt að fara með tæki út í mýri. Þetta er eitthvað sem við þurfum að ráðast í mjög fljótt því þarna er hætt við að það fari að grafast úr hjólförunum og það auki skemmdirnar verulega,“ segir hann. Spurður hvort Skógræktin hafi mannskap til að takast á við verkefnið segir hann að það þurfi þá einfaldlega að finna þann mannskap. Verkefnið geti ekki beðið.
Helgi segist þó ekki þora að segja til um það í krónum talið eða umfangi vinnu hversu stórt verkefnið er. „Við metum það og þegar það er búið þá sjáum við hvert tjónið er,“ segir hann. Helgi segir að Skógræktarfélagið hafi nú þegar falið lögmanni sínum að kæra málið og gera bótakröfu vegna þeirra skemmda sem orðið hafa. Hann segist ekki kannast við að áður hafi verið ekið upp í hlíðar Esjunnar. „Þetta er óvenjulegt enda held ég að allir hafi verið frekar hissa yfir þessu máli. Þetta er svona með því undarlegra,“ segir hann.