Haraldur Þór Teitsson, framkvæmdastjóri hópferðabílafyrirtækisins Teits Jónassonar, hefur falið lögmanni sínum að óska eftir gögnum frá dómsmálaráðuneytinu varðandi umsókn Hjalta Sigurjóns Haukssonar um uppreist æru.
„Síðan skoðum við framhaldið þegar ég kem heim,“ segir Haraldur í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort hann hyggist kæra það til lögreglu að meðmælabréf í hans nafni hafi verið notað af Hjalta til að sækja um uppreist æru.
Haraldur sendi frá sér yfirlýsingu á sunnudag þar sem hann fullyrðir að hafa ekki skrifað meðmælabréf til handa Hjalta heldur hafi aðeins verið um að ræða meðmæli í vinnu þar sem hann staðfesti að Hjalti hefði starfað hjá fyrirtækinu og hann gæti mælt með honum sem bílstjóra. Sagði Haraldur að það að þessi bréf hafi verið notuð sem meðmæli um uppreist æru Hjalta hafi verið án hans vitundar og samþykkis. Gagnrýndi hann vinnubrögð dómsmálaráðuneytisins í þessu efni harðlega og sagði þau hafa komið aftan að grandalausu fólki.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hafna tveir af þremur umsagnaraðilum með umsókn Hjalta því að hafa skrifað meðmæli sín í þeim tilgangi að aðstoða hann við að fá uppreist æru. Björg Thorarensen lagaprófessor sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ef um skjalafals væri að ræða gætu hinir meintu meðmælendur væntanlega kært slíkt til lögreglu.
