Forseti Íslands hefur fallist á tillögu Bjarna Benediktssonar um að rjúfa þing. Starfstjórn mun sitja til þess tíma.
Bauð Katrínu lyklana að fjármálaráðuneytinu
Fyrir liggur að kosið verðið 28. október næstkomandi. Bjarni svaraði spurningum blaðamanna við svo búið. Hann sagðist hafa lagt áherslu á að bregðast hratt við þeim aðstæðum sem upp komu, þá er Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu í kjölfar máls og afgreiðslu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra á því sem varðar uppreist æru mann sem dæmdur var fyrir barnaníð. Bjarni ítrekaði furðu sína á því hvernig málin þróuðust, og nefndi það sérstaklega að menn hafi ekkert sagt fyrr en á þriðja degi eftir að hann greindi Óttari og svo Benedikt Jóhannessyni formanni Viðreisnar frá því að faðir hans hafi verið umsagnaraðili á téðri umsókn um uppreist æru. Og nefndi það sérstaklega að það sem Óttar hafi talið trúnaðarbrest hafi Benedikt ekki metið sem svo.

Erfiðleikar í stjórnarsamstarfinu frá upphafi
Bjarni, lýsti því jafnframt yfir að honum hugnist ekki samstarf margra flokka. Enginn slík meirihlutastjórn hefur haldið út heilt kjörtímabil. Hann lýsti því yfir að gríðarlegur vandi fylgi því að skrúfa saman stjórnarsáttmála margra smáflokka.
Bjarni rifjaði upp hversu erfitt það reyndist að koma saman stjórn í kjölfar alþingiskosninga fyrir ári. „Fyrst hvarf ég frá stjórnarviðræðum við þessa flokka en svo fannst manni að það þyrfti að rísa undir kröfu kjósenda. En það gerðist ekki fyrr en eftir margra vikna stjórnarviðræður. Að þessu leytinu til var veikleiki stjórnarinnar með henni frá upphafi á vissan hátt. Erfiðleikar frá upphafi eftir síðustu kosningar,“ segir Bjarni. Sem vonast eftir því að hann og Sjálfstæðisflokkurinn muni fá sterkara umboð eftir næstu kosningar.
Engan bilbug var á honum að finna og hann gerir ráð fyrir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn en tekin verður ákvörðun um forystu flokksins á Landsfundi, sem haldin verður innan skamms. Það sé svo miðstjórnar að taka ákvörðun í kjölfar þess.