Aðspurður hvort hann þekki vel Robert Downey svaraði Halldór: „Við spiluðum fótbolta saman í gamla daga.“
Halldór vildi ekki tjá sig um það hvort hann hafi vitað hver brot Roberts hefðu verið.
„Þetta er ömurlegt mál og mér finnst mjög sorglegt að hafa blandast inn í þennan harmleik. Ég er sjálfur faðir og mér finnst þetta bara harmleikur. Samúð mín er með því fólki sem varð fyrir þessu.“

„Ég hef þekkt Robert frá barnæsku og get ég fullyrt með góðri samvisku, að hann hefur hegðað sér óaðfinnanlega í lífi og starfi frá því, að hann kom úr fangelsi. Á milli okkar er mikil og góð ævavarandi vinátta, traust og trúnaður.“
Halldór er eigandi Henson sem framleitt hefur íþrótafatnað undir samnefndu merki í tugi ára. Á árum áður lék hann knattspyrnu, meðal annars með meistaraflokki Vals.
Bréf frá Halldóri Einarssyni, Viðari Marel Jóhannssyni og Gauti Elvari Gunnarssyni voru á meðal gagna sem birt voru á vef dómsmálaráðuneytisins fyrr í dag. Gögnin sem Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, lagði fram með beiðni sinni um uppreist æru voru birt í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál.