Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur sektað Hajduk Split, Everton og Spartak Moskvu fyrir óeirðir stuðningsmanna.
Krótaíska liðið Hajduk Split mætti til Liverpool-borgar í síðasta mánuði þar sem liðið mætti Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton í undankeppni Evrópudeildarinnar.
Stuðningsmenn Hajduk réðust í átt að vellinum og köstuðu hlutum inn á völlinn í fyrri hálfleik leiksins, með þeim afleiðingum að stöðva þurfti leikinn. Að þessum sökum þurfa Króatarnir að borga 35 þúsund pund í sekt.
Everton hefur að sama skapi verið sektað um tæp 9 þúsund pund fyrir að stuðningsmenn þeirra voru einnig í því að kasta hlutum.
Þá þurfa forráðamenn Hajduk einnig að borga Everton fyrir skemmdir á sætum á Goodison Park.
Spartak Moskva hefur verið sektað um 53 þúsund pund og mega ekki selja stuðningsmönnum sínum miða á næsta útileik þeirra í Meistaradeildinni, gegn Sevilla.
Stuðningsmenn Moskvu hentu blysi í átt að dómara leiks Spartak og Maribor fyrr í mánuðinum.
UEFA er enn að rannsaka óeirðir áhorfenda fyrir leik Arsenal og Köln, þar sem fresta þurfti leik um klukkustund vegna miðalausra þýskra stuðningsmanna.
