Tólf tillögur lágu fyrir að svokölluðu New Frontiers-verkefni NASA. Kostnaður við leiðangra á vegum verkefnisins getur mest orðið milljarður dollara og er samkeppni haldin um hvert viðfangsefni þeirra á að vera.
Að þessu sinni voru það CAESAR- og Dragonfly-leiðangrarnir sem hlutu náð fyrir augum NASA. Bæði verkefni verða fjármögnuð út næsta ár en ákvörðun verður tekin um hvort þeirra hreppir hnossið um mitt ár 2019. Geimfari yrði skotið á loft um miðjan næsta áratug, að því er segir í frétt á vef Planetary Society.

Dragonfly-leiðangurinn stefnir á Títan, stærsta tungl Satúrnusar. Títan er einstakt í sólkerfinu en það er eina tunglið með þykkan lofthjúp. Þar mynda fljótandi kolvetni vötn og höf á yfirborðinu. Dragonfly myndi fljúga um Títan og rannsaka nokkra staði á yfirborði tunglsins.
Á vefsíðu verkefnisins kemur fram að geimfarið væri dróni sem myndi taka sýni og greina efnasamsetningu yfirborðsins, meðal annars til að rannsaka lífræn efnasambönd.