Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar, kynnti hugmyndirnar á kynningarfundi um borgarlínu og uppbyggingarverkefni tengd henni í Ráðhúsinu í dag.
Í máli Björns kom fram að borgin hafi fengið verkfræðistofuna Mannvit, Landslag og Teiknistofuna Tröð til þess að teikna upp mögulega útfærslu á hugmyndinni.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá yfirlitsmynd þar sem búið er að teikna inn á fyrirhugaða uppbyggingu í Vogabyggð og á Ártúnshöfða þar sem gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á næstu árum. Rauða línan táknar mögulega legu hinnar fyrirhuguðu borgarlínu og rauðu kassarnir mögulega staðsetningu biðstöðva fyrir borgarlínuna.
Var myndin útbúin til þess að skoða mögulega útfærslu á því hvernig borgarlínan gæti þverað bæði Elliðaárnar og Sæbrautina.

Í samtali við Vísi segir Björn að ekki sé um nýja hugmynd að ræða en árið 2014 kölluðu íbúar á svæðinu eftir því að huga þyrfti vel að tengingum á milli hverfanna, meðal annars með því að leggja þennan hluta Sæbrautar í stokk.
Mögulegt sé að gera þetta í áföngum, byrja á brúnni og halda svo áfram og bendir Björn á að landslagið á þessu tiltekna svæði sé hagstætt þar sem Sæbrautin liggi neðarlega á þessu svæði, því ætti til að mynda að vera auðveldara að koma Sæbrautinni í stokk en Miklubrautinni, líkt og hugmyndir gera ráð fyrir.
Líkt og fyrr segir er málið enn á hugmyndastigi en gerir Björn ráð fyrir því að það verði unnið áfram innan borgarkerfisins á næstu mánuðum.