Um fimmtíu manns hafa farið í skýrslutöku hjá lögreglu vegna kynferðisbrotamáls sem tengist fyrrverandi starfsmanni barnaverndar. Annar einstaklingur hugðist kæra manninn í dag.
Skoðun málsins hjá lögreglu hefur verið skipt í þrennt og sér Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn um að fara yfir feril málsins og komast að því hvers vegna sex mánuðir liðu áður barnavernd var látin vita af því að starfsmaður þeirra hefði verið kærður fyrir kynferðisbrot.
„Það kann að þýða að við þurfum að gera einhverjar breytingar á okkar starfsemi, hvernig við erum að móttaka okkar gögn og meðhöndla þau," segir Karl Steinar Valssin, yfirlögregluþjónn.
Eftir fjölmörg viðtöl og skýrslutökur er málið farið að skýrast.
„Það er búið að taka skýrslur af um 40 til 50 manns í málinu þannig það er búinn að vera mikill gangur í því," segir hann.
Ekki sé ljóst hvort einhver verði látinn sæta ábyrgð.
„Það er það sem við erum að fara yfir núna. Hvernig svona getur gerst og atburðarrásina sem þarna á sér stað. En að öðru leyti getur maður kannski ekki áttað sig beint á því," segir Karl.
Á morgun mun Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu funda með fulltrúa barnaverndar og fara yfir samskipti þessara stofnana. Líkt og kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær voru yfirvöld í fjórgang með einhverjum hætti látin vita af manninum áður en kæran sem hann á nú yfir höfði sér var lögð fram í ágúst. Þessar tilkynningar bárust að minnsta kosti yfir fimmtán ára tímabil og við skoðun lögreglu er gert ráð fyrir að þolendur séu um sex til sjö talsins.
Samkvæmt heimildum fréttastofu fór annar einstaklingur á lögreglustöðina í dag og hugðist leggja fram kæru en honum var vísað frá og beðinn um að koma aftur á morgun.
Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar, sér um þann hluta er snýr að rannsókn málanna og segist hann ekki ætla að tjá sig um gang þeirra að svo stöddu.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er verið að skoða gömul mál er varða manninn og hefur lögregla meðal annars sett sig í samband við einstaklinginn sem lagði fram kæru árið 2013. Á þeim tíma sagði lögregla að málið væri fyrnt.
