Útlit var fyrir það um tíma, að Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna, myndi hitta sendinefnd Norður-Kóreu á fundi þegar hann var viðstaddur Vetrarólympíuleikana í PyongChang í Suður Kóreu.
Pence er sagður hafa samþykkt fundinn en að á síðustu stundu hafi Kóreumennirnir hætt við. Um háttsetta sendinefnd var að ræða þar sem meðal annars systir leiðtoga landsins, Kim Jong Un, Kim Yo-Jong var með í för en hún er sögð afar valdamikil í landinu.
Frá þessu er greint í miðlum vestanhafs en óljóst er hversvegna nefndin hætti við. Fjölmiðlar í Norður Kóreu hafa ekki fjallað um málið.
