Að minnsta tíu þúsund óbreyttir borgarar flúðu í morgun harðar loftárásir sýrlenska stjórnarhersins í Austur-Gúta, nærri höfuðborginni Damaskus en svæðið er á valdi uppreisnarmanna.
Fólk er einnig á flótta í norðurhluta Afrin-héraðs undan árásum tyrkneskra hersveita og samherja þeirra.
Um hundrað og fimmtíu þúsund manns hafa flúið Afrin-svæðið á síðustu dögum að sögn kúrdískra embættismanna og eftirlitsaðila. Reuters greinir frá þessu.
Þessar tvær árásir, önnur studd af Rússum og hinn leidd af Tyrkjum, hafa sýnt hvernig sýrlenskar fylkingar og erlendir bandamenn þeirra eru að breyta landakortinu með hervaldi í kjölfar þess að sigur var unninn á hersveitum samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.
Um þessar mundir eru sjö ár liðin frá því stríðsátök hófust í Sýrlandi og á þeim tíma hafa hundruð þúsunda látið lífið og að minnsta kosti ellefu milljónir hafa þurft að yfirgefa heimkynni sín.

