Ríkisstjórnin tilkynnti í gær um þátttöku Íslands í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna árásar á rússneskan fyrrverandi njósnara og dóttur hans í bænum Salisbury í Bretlandi fyrr í þessum mánuði. Þau komust í snertingu við taugaeitur og telja bresk stjórnvöld yfirgnæfandi líkur á að rússnesk stjórnvöld hafi staðið að baki tilræðinu.
Ísland er þó eina norræna ríkið sem kýs að visa rússneskum erindrekum ekki úr landi. Vísa íslenskir ráðamenn til smæðar landsins. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar sögðu Vísi í dag að ef Rússar svöruðu í sömu mynt yrði fámennt sendiráð Íslands í Rússlandi óstarfhæft.
Skrópið á HM sýnir hversu alvarlega Íslendingar taka aðgerðirnar
Í svari við skriflegri fyrirspurn Vísis lýsir Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi, skilningi á að íslensk stjórnvöld hafi ekki gengið lengra.„Við kunnum vel að meta hversu staðráðin íslensk stjórnvöld eru í að taka þátt í alþjóðlegri samstöðu og senda rússneskum stjórnvöldum ótvíræð skilaboð,” segir Nevin.
Hann telur að ákvörðunin um að íslenskir ráðamenn mæti ekki á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar þar sem Íslands tekur þátt í fyrsta skipti sé til marks um hversu alvarlega íslensk stjórnvöld taki málið.
„Í ljósi þess að Ísland hefur í fyrsta sinn í sögunni unnið sér keppnisrétt í úrslitum heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu vegur sú ákvörðun í raun þungt að engir opinberir fulltrúar íslenskra stjórnvalda mæti til Rússlands í sumar. Ákvörðunin endurspeglar hversu mikla áherslu Ísland leggur á mikilvægi þess að viðhalda alþjóðarétti og að verja lýðræðissamfélög heimsins. Svona líta bresk stjórnvöld á viðbrögð Íslands og við vonum að Rússar taki skilaboðin til sín og skilji þörfina á að breyta hegðun sinni,” segir Nevin.