Engin skilyrði
Hún segir engin skilyrði sett til þess að mæta á fyrstu æfingu en að þetta sé líkamlega erfitt og geti þær því ekki tekið hvern sem er inn.
„Ég var búin að vera í fimleikum þegar ég var yngri og var að leita mér að íþrótt eftir að ég hætti. Ég hafði alveg hugsað út í þá hugmynd svona á léttu nótunum að stofna klappstýrulið og strákur sem ég var að hitta á sínum tíma sem er í Einherjum stakk upp á því að ég myndi smala saman stelpum og halda sýningu í hálfleik. Ég fór og fann tíu stelpur strax og við skoðuðum myndbönd á YouTube en það eru ekki allt sömu stelpur og eru í dag,“ sagði Ósk sem sagði klappstýruteymið vera með mismunandi bakgrunn.
„Það eru margar með mismunandi bakgrunn, sumar koma úr dansi og fimleikum en aðrar eru ekki jafn reyndar. Það eru í raun engin skilyrði sem við setjum, þú þarft að hafa styrk og kunna að dansa en annars erum við með opnar æfingar út vorið þar sem hver sem er velkomin að prófa. Ef aðili hefur metnað og áhuga á þessu er það svo skoðað.“
Það þarf að vera í góðu formi til að vera klappstýra en Ósk segir að þær séu með æfingar fimm sinnum í viku.

Finnum fyrir fordómum
Hún segir að þær finni fyrir miklum fordómum á stundum en þær nái að útiloka það.
„Við finnum fyrir mjög miklum fordómum en við hlustum ekkert á það. Helst eru það afbrýðisamar stelpur og eldra fólk sem segir að þetta sé of kynferðislegt. Fólk segir að við séum í stuttum pilsum og flegnum bolum að dilla okkur en það er rugl, “ sagði Ósk og bætti við: „Þetta er alvöru íþrótt, alveg eins og allt annað.“
Þrátt fyrir gagnrýnina hafa þær háleit markmið fyrir framtíðina.
„Við finnum fyrir auknum áhuga og erum að verða þekktari, draumur minn er að allt Ísland viti af þessu og að yngri stelpur viti af þessum möguleika og geti æft. Í dag erum við helst með sýningu á Einherjaleikjum en við erum alltaf tilbúnar að taka að okkur verkefni því að umfjöllunin styrkir okkur.“