Könnun Fréttablaðsins mælir Sjálfstæðisflokkinn með fjóra fulltrúa og L-lista með tvo. Miðflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Píratar og Vinstri græn fá síðan öll einn fulltrúa hver.
„Þetta var afar ánægjulegt að sjá að við mælumst með mann inni á Akureyri og höfum ekki enn farið af stað í kosningabaráttu og gefur okkur byr undir báða vængi,“ segir Sigmundur. „Við munum kynna lista með pompi og prakt um helgina og hefja kosningabaráttuna.“
Sjá einnig: Miklar breytingar í vændum á Akureyri

„Ég bjó þarna í íbúð sem verið er að gera upp og mun líklega flytjast þangað aftur eftir lagfæringar. Einnig var eitt af fyrstu félögunum stofnað á Akureyri og mikið starf unnið þar. Því er þetta sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur,“ bætir Sigmundur Davíð við.
Verði þetta niðurstaða kosninganna geta L-listinn og Sjálfstæðisflokkurinn myndað meirihluta og er þetta eini möguleikinn á tveggja flokka meirihluta. Gunnari Gíslasyni þykir það ákjósanlegast í stöðunni. „Þetta er jákvæð skoðanakönnun og blæs okkur eldmóð í brjóst. Ég tel ákjósanlegast að reyna að mynda fyrst tveggja flokka meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja það til að ég verði bæjarstjóri í slíkum meirihluta.“
Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans, er afar ánægð með það að flokkur hennar mælist með rúmlega 20 prósenta fylgi. „Þetta er það sem við ætlum okkur í kosningunum. Þetta er auðvitað bara skoðanakönnun en við erum afar ánægð með þetta,“ segir Halla. Hún vill ekki gefa út hvernig myndun meirihluta verður háttað og vill bíða úrslita kosninganna.