Vinstri græn í Kópavogi telja launahækkun bæjarstjóra Kópavogs allt of mikla og vera í engu samræmi við kjör annarra starfsmanna bæjarins.
Greint var frá því í gær að laun Ármanns Kr. Ólafssonar hafi hækkað um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017, eða sem nemur ríflega 612 þúsund krónum á mánuði.
„Að mánaðarleg launahækkun sé meira en tvöföld mánararlaun margra starfsmanna bæjarins er óásættanlegt. Kópavogur er einn stærsti vinnuveitandi landsins og stærsti hluti starfsfólksins er fólk á afar lágum launum, fólk sem starfar við umönnun og uppeldi barnanna okkar,“ segir í yfirlýsingu sem Vinstri græn í Kópavogi sendu á fjölmiðla í morgun.
Sjá einnig: Mánaðarlaun bæjarstjórans hækkuðu um 612 þúsund
„Þetta fólk þarf betri kjör, en ekki þeir sem eru með bestu kjörin. Allri hugsun hvað varðar laun og virði starfa í landinu þarf að breyta og framvæma samkvæmt því.“
Bæjarstjórn Kópavogsbæjar samþykkti í febrúar í fyrra að hafna 44 prósenta hækkun kjararáðs og tengja laun kjörinna fulltrúa við þingfararkaup.
Sú ákvörðun færði bæjarfulltrúum þrátt fyrir það 30 prósentum hærri laun milli ára. Þeirra á meðal eru Margrét Júlía Rafnsdóttir, oddviti VG í Kópavogi, sem og Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, sem gangrýndi hækkun bæjarstjórans í samtali við Fréttablaðið í morgun.
