TMZ hefur eftir talsmanni útfararstofu í bænum Livingston í Montana, þar sem Kidder var búsett, að hún hafi látist á heimili sínu. Dánarorsök er enn ókunn.
Eins og áður hefur komið fram er Kidder þekktust fyrir hlutverk sitt sem blaðakonan Lois Lane í fjórum Superman-kvikmyndum: Superman, Superman II, Superman III og Superman IV: The Quest for Peace.
Kidder glímdi alla ævi við geðhvörf og bjó á götunni þegar glíman við sjúkdóminn stóð sem hæst. Hún varð síðar ötull talsmaður fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum.
Hér að neðan má sjá atriði úr kvikmyndinni Superman sem kom út árið 1978. Bandaríski leikarinn Christopher Reeve, sem lést árið 2004, fór með hlutverk Superman.