„Hlutverk stjórnvalda er að byggja brýr til fólksins og við höfum talað um það í Vinstri grænum að við þurfum að stokka kerfið upp að þessu leyti og í rauninni lýðræðisvæða það miklu meira þannig að fólk hafi betri aðkomu að ákvarðanatöku, sama hvar það er statt í lífinu,“ segir Líf sem var auk Sönnu gestur í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun.
Lýðræðisvæðing og valdefling hinna valdlausu var raunar meginumfjöllunarefnið á kaffisamsæti Sósíalistaflokksins í gær. Sanna mælti sér ekki mót við neinn flokksformannanna í gær því samtal við baklandið var sett í forgang.
Flokkarnir sem fengu kjörna menn inn í borgarstjórn í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum þurfa nú að huga að því að mynda meirihlutastjórn. Sanna segir að myndun meirihluta hafi alls ekki verið efst á blaði á fundi með baklandinu í gær. Meginstefið hafi þvert á móti verið að valdefla hina valdlausu og ræða leiðir til að tengjast betur hagsmunasamtökum. Sanna segir að fólkið í „hinni Reykjavík“, eins og Sósíalistar hafa komist að orði í kosningabaráttunni, upplifi tengslaleysi við borgarstjórnina og finnist kerfi borgarinnar ekki þjóna hagsmunum sínum.

Að sögn Sönnu er fyrsta skrefið að meta það hvort þau geri meira gagn í meirihluta eða minnihluta og til standi að gaumgæfa alla möguleika. Aðspurð segir hún jafnframt að það komi til greina að verja meirihlutastjórn gegn því að ná fram tilteknum málum en engin ákvörðun liggur þó fyrir um þetta að svo stöddu. Efst á blaði hjá Sósíalistaflokknum í borgarstjórn er að bæta kjör hinna verst settu og að leysa húsnæðisvandann.

Líf hitti oddvita fráfarandi meirihluta í borginni auk oddvita Viðreisnar í óformlegu spjalli í gær. Sjá nánar: Tvær fylkingar funda
Hún segir að komandi kjörtímabil verði kjörtímabil uppskeru. „En svo er auðvitað gaman að það verður náttúrulega nýr meirihluti sem tekur við, hvernig sem fer,“ segir Líf sem bendir á að það eru fjölmargir möguleikar í stöðunni.