Hætta er á að ríkisstjórn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, missi meirihluta sinn á þýska þinginu vegna ósættis innan stjórnarinnar í málefnum hælisleitenda.
Innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer, sem situr í ríkisstjórn fyrir Kristilega demókrata (CSU), vill að landamæralögregla geti meinað hælisleitendum, sem ekki geta framvísað skilríkjum eða eru skráðir hælisleitendur í öðrum Evrópusambandslöndum, inngöngu í Þýskaland.
Stefna kanslarans hefur hins vegar ætíð byggt á opnum landamærum inn í Þýskaland og boðaði hún til neyðarfundar með þingmönnum flokks síns, Kristilegra demókrata (CDU), vegna málsins. Andstæðingar Merkel hafa gagnrýnt hana fyrir afstöðu sína en milljónir flóttamanna hafa komið inn í Þýskaland á undanförnum árum.
Kristilegu systurflokkar Merkel og Seehofer mynda samsteypustjórn með Þýska jafnaðarmannaflokknum, SPD. Ríkisstjórnarsamstarfið stendur nú völtum fótum þar eð þingmenn CSU, flokks Seehofer, hafa fylkt sér á bak við leiðtoga sinn í hælisleitendamálinu. Verði ósættið til þess að CSU slíti sig frá ríkisstjórn Merkel missir hún meirihluta sinn á þinginu.
