Niðurstöður starfshópsins, sem voru kynntar á fundi ríkisstjórnarinnar síðasta föstudag, eru ekki í samræmi við ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur lagt til í skýrslum sínum að bankaeftirlit verði flutt til Seðlabanka Íslands. Í nýrri skýrslu nefndar um ramma peningastefnunnar, sem kom út í síðustu viku, var að sama skapi lagt til að ábyrgð yrði færð frá FME til Seðlabankans þannig að bankinn bæri einn ábyrgð á eftirliti með þjóðhagsvarúð og eindarvarúð.
Starfshópurinn, sem starfaði undir formennsku Jóhannesar Karls Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns á Landslögum, telur á hinn bóginn ekki skynsamlegt að „kljúfa“ eftirlitið upp með þeim hætti að almennt eftirlit með fjármálafyrirtækjum verði flutt til Seðlabankans og eftirlit með öðrum fyrirtækjum, svo sem lífeyrissjóðum og tryggingafélögum, skilið eftir hjá Fjármálaeftirlitinu. „Með því myndi glatast yfirsýn yfir mikilvæga þætti auk þess sem það að skilja að bankaeftirlit og tryggingaeftirlit gæti leitt til þess að eftirlit með fjármálasamsteypum lenti á milli skips og bryggju,“ segir í skýrslu starfshópsins.
Núverandi kerfi ófullkomið
Hópurinn segir ýmsa galla vera á núverandi fyrirkomulagi, þar sem Seðlabankinn fer með eftirlit með lausafjárstöðu banka en Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með eiginfjárstöðu þeirra, og telur að það væri til bóta að sameina eftirlitið undir einum hatti. Er meðal annars bent á að í lögum um Seðlabankann sé ekki að finna hefðbundin ákvæði um úrræði eftirlitsstofnana sem varða til dæmis fresti til úrbóta eða takmörkun starfsleyfis.Þó er tekið fram í skýrslu starfshópsins að almennt séu talin rök með því að seðlabankar hafi fjármálaeftirlit innan sinna vébanda og að með því móti geti þeir sinnt hlutverki lánveitanda til þrautavara með ábyrgum og tryggum hætti. Á fundi hópsins með fulltrúum Seðlabankans kom einmitt fram sú afstaða bankans að eftirlitshlutverk hans með lausafjárstöðu banka væri nauðsynlegt svo hann gæti sinnt hlutverki sem „lánveitandi til lánastofnana sem taka við innlánum“.

FME hafi auk þess skýrari almennar eftirlitsheimildir, heimildir til rannsókna og heimildir til beitingar þvingunar úrræða en Seðlabankinn. Niðurstaða starfshópsins er þannig sú að eftirlit með lausu fé og fjármögnun banka, sem og annarra fjármálafyrirtækja, verði formlega á hendi Fjármálaeftirlitsins en ekki Seðlabankans. Hins vegar telur hópurinn rétt að Seðlabankinn hafi – við ákveðnar kringumstæður – heimildir til þess að setja reglur um laust fé og stöðuga fjármögnun banka. Auk þess vill hópurinn að bankinn hafi „með skipulögðum hætti“ aðgang að öllum þeim gögnum sem FME aflar við eftirlit sitt.
Sjálfstæði FME eflt
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagst hafa áhyggjur af því að Fjármálaeftirlitið sé bitlaust og skorti sjálfstæði. Sem dæmi sagði í yfirlýsingu sendinefndar sjóðsins í fyrra að eftirlitið væri „ekki nógu einangrað frá stjórnmálum“.Til lausnar á þessu hefur sjóðurinn annars vegar lagt til að fjármálalegt og rekstrarlegt sjálfstæði FME frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu verði tryggt og hins vegar að lausafjáreftirlit með bönkum verði sameinað öðru eftirliti með bönkum í Seðlabankanum. Eins og áður segir leggur starfshópurinn ekki til að bankaeftirlit verði flutt til Seðlabankans en hins vegar tekur hann undir með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um mikilvægi þess að sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins verði eflt.
Leggur hópurinn meðal annars til að eftirlitsstofnunin verði skilgreind sem sjálfstætt stjórnvald og að ráðherra hafi ekki aðra formlega aðkomu að starfsemi stofnunarinnar en að ganga frá skipun stjórnarmanna og við fjármögnun hennar.