Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, sem hefur áður vakið athygli fyrir umdeild ummæli eins og til dæmis að bölva Páfanum og segja Barack Obama að fara til helvítis, hefur nú enn á ný vakið reiði almennings með því að kalla Guð „heimskan.“
Filippseyingar eru mjög kristin þjóð og hafa ummælin valdið fjaðrafoki innan filipseysks samfélags.
Kaþólskur filipseyskur biskup, Arturo Bastes, kallaði forsetann brjálæðing og hvatti Filippseyinga til þess að biðja fyrir enda Duterte.
„Hver er þessi heimski Guð? Þessi tíkarsonur er virkilega heimskur“ sagði 73 ára gamli forsetinn í ræðu sem sýnd var í sjónvarpinu í Filippseyjum.
Talsmaður Duterte verndar ummæli hans og segir forsetann hafa rétt á því að tjá sínar eigin skoðanir á trúarbrögðum.
Einnig segir talsmaðurinn frá því að Duterte sé sérstaklega andvígur kirkjunni vegna persónulegrar reynslu af henni, en hann var kynferðislega misnotaður af presti í æsku.

