Mexíkó er í góðum málum með fullt hús stiga á toppi F-riðils eftir sigur á Suður-Kóreu í öðrum leik liðanna á HM í Rússlandi. Leiknum lauk með 2-1 sigri Mexíkó sem senda Suður-Kóreu heim að riðlakeppni lokinni með sigrinum.
Á 25. mínútu leiksins fékk Mexíkó vítaspyrnu. Andres Guardado setti boltann þá í hönd Hyun-Soo Jang og dómari leiksins dæmdi réttilega vítaspyrnu. Carlos Vela fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Leikmenn Suður-Kóreu börðust eins og ljón en höfðu fá svör við hættulegum skyndisóknum Mexíkó. Á 66. mínútu komst Mexíkó tveimur mörkum yfir eftir eina slíka. Þar komust þeir þrír á tvo varnarmenn Suður-Kóreu. Hirving Lozano kom boltanum á Chicharito sem á ekki vandræðum með að renna honum fram hjá Hyun-Woo Cho í markinu.
Á 93. mínútu náði Heung-Min Son að klóra í bakkann þegar hann minnkaði muninn fyrir Suður-Kóreu með glæsilegu skoti fyrir utan teig, en nær komst Suður-Kórea ekki og lokatölur 2-1 fyrir Mexíkó.
Úrslitin þýða að draumur Suður-Kóreu um 16-liða úrslit er úti á meðan Mexíkó gæti fagnað eftir leik Þýskaland og Svíþjóðar í kvöld. Nái Svíþjóð stigum af Þýskalandi eru Mexíkóar öryggir áfram, annars myndi stig í lokaleiknum gegn Svíþjóð gulltryggja liðinu 16-liða úrslit.
