Gyða segir að innflutningurinn á skyrísnum, sem framleiddur er fyrir Emmessís af danska ísframleiðandanum Hansens Flødeis, séu viðbrögð fyrirtækisins við breyttum markaðsaðstæðum. Þeirra á meðal séu breytingar á tollalögum, sem tóku gildi þann 1. maí síðastliðinn.
Lækkuðu þá tollar á innfluttum ístengdum vörum sem unnar eru úr mjólkurafurðum - „þá harðnar að sjálfsögðu á samkeppnismarkaði,“ eins og Gyða orðar það en hún metur það sem svo að neytendur horfi frekar á verð en uppruna vörunnar. Í tilfelli skyríssins sé uppruninni ekkert launungarmál að sögn Gyðu. Þó umbúðirnar séu á íslensku má sjá á þeim tvö dönsk merki, þ.m.t. merki danska fyrirtækisins.
Þar að auki sé dýrt að þróa og dreifa vörum sem þessum á jafn litlum markaði og þeim íslenska. Gyða segir að því hafi verið horft til Norðurlandanna, þar sem fjöldi framleiðenda hafi tekið að þróa skyrís á síðustu misserum.
Emmessís hafi því talið hagkvæmara að flytja inn vöru frá stærra markaðssvæði og pakka henni inn í íslenskar umbúðir, fremur en að framleiða hana sjálft frá grunni. Í þessu samhengi nefnir Gyða að Íslendingar séu farnir að kaupa innfluttan klaka í auknum mæli, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.
Gyða bætir við að Emmessís muni áfram þróa eigin vörur úr íslenskum afurðum - „ef markaður er til staðar.“ Á endanum séu það alltaf neytendurnir sem ráða.
Hér að neðan má sjá líflegar umræður um danska skyrísinn.