Hundruð nýnasista marseruðu í dag um miðborg Berlínar, höfuðborgar Þýskalands. Samkvæmt AP nutu þáttakendur göngunnar verndar lögreglunnar þar í borg.
Gangan var skipulögð til þess að minnast 31 árs dánarafmælis Rudolfs Hess, en hann var hátt settur innan Nasistaflokksins á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hess lést í fangelsi í Berlín þann 17. ágúst árið 1987.
Að sögn Thilo Cablitz, talsmanns lögreglunnar í Berlín, hafa lögregluþjónar þurft að fjarlægja nokkra mótmælendur af vinstri væng stjórnmálanna af svæðinu, en þeir voru á svæðinu til þess að mótmæla göngunni.
Þá sagði Cablitz að steinum og flöskum hefði verið kastað í átt að göngunni, en gat ekki sagt til um nákvæmlega hversu margir hefðu særst.
Í göngunni mátti meðal annars sjá menn sem reyndu að líkja eftir útliti Adolfs Hitler og risastóran borða með skilaboðunum „Ég sé ekki eftir neinu.“
