Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði frá því í gær að alls hafi 63.000 rússneskir hermenn öðlast reynslu af átökum í Sýrlandi frá því í september 2015. Aukinheldur hafi Rússar gert 39.000 loftárásir úr varnarstöðu, skotið á 121.466 skotmörk og drepið 86.000 vígamenn, að því er ráðuneytið hélt fram.
Ráðuneytið segir Rússa hafa prófað 231 nýtt vopn í Sýrlandi.
Ekki var minnst á mannfall almennra borgara sem bresku samtökin Syrian Observatory for Human Rights halda fram að nemi nærri átta þúsund. Yfirvöld í Rússlandi hafa haldið því fram að loftárásir þeirra beinist eingöngu gegn hryðjuverkamönnum en aðgerðasinnar á svæðinu segja almenna borgara oftast verða fyrir skothríðinni.
Stríðsglæparannsakendur á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa einnig bent á að loftárásir Rússa og bandamanna þeirra hafi ítrekað hæft sjúkrahús, skóla og markaði. Slíkir staðir njóta sérstakrar verndar undir alþjóðalögum.
