Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, segir að hann og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, vilji lýsa yfir friði með formlegum hætti fyrir árslok. Moon mun ræða það við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á næstu dögum. Ríkin hafa í raun staðið í stríði frá árinu 1950 þegar Kóreustríðið hófst. Því lauk árið 1953 en þó einungis með vopnahléi, ekki friðarsamkomulagi.
Leiðtogarnir tveir funduðu í þriðja sinn í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, á dögunum. Þar sem skref voru tekin í aukinni samvinnu ríkjanna.
Meðal annars samþykkti Kim að loka helsta kjarnakljúfi Norður-Kóreu en þá einungis ef Bandaríkin láti af viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum í garð einræðisríkisins. Þá ætlar Kim að heimsækja Suður-Kóreu og ríkin munu í sameiningu sækjast eftir því að halda ólympíuleikana 2032.
Moon fór yfir fund hans og Kim í sjónvarpi í Suður-Kóreu í morgun og sagði Kim vilja annan fund með Trump. Þá mun Kim hafa viljað fá Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Norður-Kóreu vegna áframhaldandi viðræðna um kjarnavopna- og eldflaugaáætlana einræðisríkisins.
Þá mun Moon færa Trump persónuleg skilaboð frá Kim þegar hann fer til Bandaríkjanna í næstu viku.
Vilja lýsa yfir friði fyrir árslok

Tengdar fréttir

Kim ætlar að loka skotpöllum og tilraunasvæðum
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, samþykkti á fundi með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, að einum aðal eldflaugaskotpalli ríkisins yrði lokað. Þá stefna ríkin á að afkjarnorkuvopnavæða Kóreu-skaga.

Duga loforð Kim til?
Moon Jae-in og Kim Jong-un, leiðtogar Suður- og Norður-Kóreu samþykktu fjölda aðgerða sem snúa að bættum samskiptum ríkjanna á fundi þeirra í gær.

Leiðtogar Kóreuríkjanna föðmuðust við upphaf heimsóknar Moon til Pyongyang
Mörg hundruð Norður-Kóreumanna tóku á móti suður-kóreska forsetanum á flugvellinum í Pyongyang og veifuðu fánum.

Stefnir í annan fund með Trump
Bandaríski miðillinn Politico sagði í gær að þar í landi fylgdust stjórnvöld náið með fundinum í vikunni og reyndu að komast að því hvort grundvöllur væri fyrir öðrum leiðtogafundi Trumps og Kim