Borgarlögmaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar braut gegn innkaupareglum borgarinnar við gerð samninga um endurbætur á bragganum í Nauthólsvík.
Borgarlögmaður lagði fram álit um fylgni við innkaupareglur vegna framkvæmda við byggingarnar þrjár við Nauthólsveg á fundi innkauparáðs í dag.
Er það niðurstaða lögmannsins að reglur hafi verið brotnar en hann segir hins vegar að lög hafi ekki verið brotin.
Borgarlögmaður greinir einnig frá því í álitinu að tafir við framlagningu álitsins stafi af því að upplýsingar frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar lágu ekki fyrir fyrr en 15. október sl. Kemur fram í álitinu að borgarlögmaður hafi áður upplýst innkauparáð um tafir á afhendingu upplýsinga og gagna á fundum ráðsins en að ráðið hafi ekki bókað um þær sérstaklega á fundum sínum.
Borgarlögmaður kemst að þeirri niðurstöðu að verkefnið hafi ekki verið útboðsskylt samkvæmt þágildandi lögum um opinber innkaup og sé því ekki um brot á þeirri löggjöf að ræða í tilviki endurbyggingar á húsaþyrpingunni við Nauthólsveg 100.
Brotið gegn reglum um innkaup í braggamálinu
Birgir Olgeirsson skrifar
