Í lögum um ríkisfjármálaáætlun er kveðið á um að hið opinbera þurfi að skila afgangi sem nemur einu prósenti af vergri landsframleiðslu. Hingað til hefur það verið nokkuð auðsótt í örum vexti hagkerfisins. Nú kveður hins vegar við nýjan tón; kólnun hagkerfisins er í aðsigi og því þarf að gera ráðstafanir.
Í umræðu síðustu daga hefur mátt skilja sem svo að ríkisstjórnin ætli sér að skera niður í ríkisrekstrinum á næsta ári. Þegar breytingartillögur eru hins vegar skoðaðar í samanburði við fjárlög þessa árs og hins næsta kemur í ljós að enn er verið að auka ríkisútgjöld til ýmissa fjárlagaliða.

Einnig hefur komið fram í umræðunni að hækkun til öryrkja, sem átti að nema fjórum milljörðum króna, sé aðeins 2,9 milljarðar. Willum telur það eiga sér eðlilegar skýringar. „Þegar við skoðum örorkubætur þá erum við að setja 47 milljarða þangað. Örorkubætur eru að hækka, í samræmi við lög um almannatryggingar, um verðlagsbætur og launaþróun. Þessi hækkun um 2,9 milljarða en ekki fjóra eins og að var stefnt í upphafi snýst um breytingar á almannatryggingakerfinu sem við viljum enn sjá. Hins vegar er ekki búið að klára tillögurnar og því bíðum við átekta.“
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, eins og það leit út þegar það kom fram í september var áætlað að afkoma ríkissjóðs yrði yfir 1 prósenti af vergri landsframleiðslu á þessu ári og áætlað að hún verði það líka á næsta ári. Breytt hagspá gerir hins vegar þá kröfu á ríkið að það bregðist við og dragi úr útgjaldaaukningunni.