Þingmönnum Flokks fólksins fækkaði um helming í gærkvöldi þegar Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni var vikið úr flokknum vegna aðkomu þeirra að samkomunni á barnum Klaustri. Formaður flokksins Inga Sæland segist ganga stolt frá málinu en hefði viljað sjá þingmennina víkja.

Hún segist hafa fengið mikinn stuðning á þingi.
„Okkur er boðin aðstoð í allar áttir, og okkur er boðin styrk aðstoð hvað varðar nefndir, að fá aðgang að öllu því sem fram fer í nefndum þannig að við verðum alltaf upplýst,“ segir Inga.
Þingmennirnir telja hins vegar að aðgerðir flokksins hafi verið of harkalegar.
„Það er svona að einhverju leyti verið að kvarta yfir því að við höfum sest á fund með öðru fólki án vitundar eða samþykkis forystu flokksins. Það er auðvitað alveg nýtt ef menn ætla að gera slíkar kröfur, einhverjir myndu kalla þetta ógnarstjórn eða eitthvað álíka,“ segir Ólafur Ísleifsson.
Karl Gauti Hjaltason tekur í sama streng.
„Þetta hlýtur að vera einhver fljótfærnisleg ákvörðun sem þarna á sér stað. Ef litið er til ummæla sem höfð eru eftir okkur á þessari samkomu sem var hljóðrituð þá er ekkert þar sem gefur tilefni til að reka okkur úr flokknum.“

En þrátt fyrir að þingmennirnir hafi verið reknir teljast þeir enn vera í þingflokki Flokks fólksins og eftir standa því tveir jafnstórir tveggja manna hlutar. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir að Ólafur og Karl Gauti hljóti að fara úr þingflokknum.
„Það verður einhver kapall sem fer af stað núna, það er alveg augljóst. Þeir hljóta að fara út úr þingflokknum, það getur ekki annað verið eftir það sem á undan er gengið. Það væri svo undarlegt að maður nær því ekki almennilega.“