Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata segir að meint pólitísk hrossakaup með sendiherraembætti hafi tvímælalaust verið hvatinn að baki þeirri ákvörðun að leggja málið fram að nýju en Björt framtíð hefur tvívegis lagt málið fram.
Meint hrossakaup með sendiherraembætti
Á Klaustursupptökunum svokölluðu hélt Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra því fram að árið 2014 hefði hann skipað Árna Þór Sigurðsson sendiherra til að draga athygli frá skipan Geirs H. Haarde í stöðu sendiherra í Washington.Þá kom fram á upptökunum að Gunnar Bragi hafi talið sig eiga inni að verða sjálfur skipaður sendiherra sem endurgjald fyrir skipanina. Á upptökunni mátti þá einnig heyra Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins staðfesta frásögn Gunnars Braga. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hafi „fylgt málinu vel eftir“.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis boðaði til opins fundar um málið. Til stóð að ræða við Sigmund Davíð, Gunnar Braga, Bjarna og Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra en hvorki Sigmundur né Gunnar Bragi svöruðu ítrekuðum fundarboðum stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar. Fundinum verður því frestað þangað til eftir áramót.
Annar háttur hafður á í Danmörku, Noregi og Finnlandi
Flutningsmenn segja að frumvarpið sé liður í því að auka gagnsæi og aðhald í stjórnsýslunni. Hingað til hefur það tíðkast að skipunarvald sendiherra og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins sé pólitískt og í höndum utanríkisráðherra hverju sinni.Í frumvarpinu kemur fram að hjá öðrum Norðurlandaþjóðum sé annar háttur hafður á við skipun sendiherra og ráðuneytisstjóra. „Í Danmörku, Noregi, og Finnlandi tíðkast ekki að einstaklingar sem ekki starfa þegar innan utanríkisþjónustunnar séu skipaðir í störf sendiherra án þess að staðan hafi áður verið auglýst laus til umsóknar.“
Almennt séu lausar stöður sendiherra auglýstar innan utanríkisþjónustunnar þannig að starfsmenn sem hafa starfað innan utanríkisþjónustunnar um árabil gefst kostur á að sækja um starfið.
„Telja verður að þau sjónarmið sem búa að baki skyldunni til að auglýsa opinber störf og birta upplýsingar um umsækjendur sé þess óskað hafi mjög mikið vægi með tilliti til vandaðrar stjórnsýslu í þágu almennings, jafnræðis og gagnsæis við meðferð opinbers valds.“
Ákvörðunarferlið verður að vera gagnsætt og hafið yfir vafa og tortryggni eins og frekast er unnt segir í frumvarpinu.