Í skjölum sem breska þjóðskjalasafnið hefur gert opinber kemur fram að Thatcher hafi lýst Mandela sem frekar þröngsýnum manni eftir þetta fyrsta símtal. Þá hafi hún einnig lýst vonbrigðum sínum með samtalið.
Aðdragandanum að fundi þeirra Mandela og Thatcher, sem fram fór í júlí 1990, fimm mánuðum eftir að Mandela var látinn laus, er lýst í þessum skjölum forsætisráðherrans sem nú hafa verið gerð opinber. Fjallað er um málið á vef Guardian.
Þar segir að Mandela, sem þá var 71 árs, hafi mikið viljað hitta Thatcher til þess að ræða refsiaðgerðir Bretlands gegn Suður-Afríku vegna aðskilnaðarstefnu stjórnvalda milli hvítra og svartra íbúa landsins (apartheid).

Vildi hitta Thatcher strax í júní
Í skjölunum er því lýst að Thatcher hafði boðið Mandela til fundar og hádegisverðar í byrjun júlí. Þann 16. júní fékk hins vegar ráðgjafi Thatcher í utanríkismálum, Charles Powell, símtal frá Mandela.Er símtalinu lýst á þann veg að Mandela hafi sótt það hart að hitta á Thatcher morguninn eftir áður en hann hélt frá London áleiðis til Kanada.
Powell hélt að það myndi ekki ganga en bauðst til að koma sjálfur til fundar eða koma á símtali við Thatcher.
„Hann var frekar harður á því að tala við þig beint,“ sagði Powell við Thatcher sem hringdi svo í Mandela morguninn eftir.
Í símtalinu varaði Mandela við því að ef Bretland myndi slaka á refsiaðgerðum sínum gegn stjórnvöldum í Suður-Afríku þá myndi það hafa þveröfug áhrif hvað það varðaði að binda endi á aðskilnaðarstefnuna.
Thatcher hvatti aftur á móti til þess að ANC, stjórnmálaflokkurinn sem Mandela var í, myndi láta af vopnaðri baráttu sinni. Sagði hún að Bretland hefði þjáðst vegna Írska lýðveldishersins, IRA.
„Forsætisráðherrann sagði við mig eftir símtalið að hún hefði verið svolítið vonsvikin með Mandela sem virtist vera frekar þröngsýnn,“ stendur í minnisblaði Powell um símtalið. Þar sagði jafnframt að halda ætti símtalinu leyndu, það er að segja ekki fjölmiðlum frá því.