Delete-takkinn er aðaltakkinn Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar 6. desember 2018 10:00 Skáldið Fríða Ísberg gaf nýverið út smásagnasafnið Kláða og smeygir sér inn í hugarheim ungs fólks af innsæi. Umfjöllunarefnið er fjölbreytt, húsnæðismarkaðurinn, kvíði, klám, djamm og tilfinningalíf fólks á tímum snjallsíma. Fríða Ísberg fær sér svart kaffi og smjördeigshorn. Skjannahvít birtan af jólakettinum lýsir upp Lækjartorg. Fyrir framan hann stendur fjöldi ferðamanna og hlustar agndofa á lýsingar leiðsögumanns á blóðþorsta kattarins og lyst hans á illa búnum börnum. „Ég vann hér einu sinni,“ segir hún og lítur í kringum sig á kaffihúsinu. „En það er allt breytt. Það var fyrir sex árum síðan,“ segir Fríða. Sögur Fríðu í smásagnasafninu Kláða þykja fullar innsæis og djarfar. Hún hefur áður sent frá sér ljóðabókina Slitförin sem hlaut mjög góðar viðtökur og var meðal annars tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2018. Fast í pattstöðu Er einhver sameiginlegur þráður í sögunum? „Ég vann í upphafi með fimm sögur og tók þá eftir að í þeim var sameiginlegur þráður. Það var eitthvað að. Ég fann ekki orð yfir það strax. Fólk var fast í pattstöðu, verkjaði undan einhverju en sótti í það á sama tíma. Ástand sem er vægara en fíkn. Ef það væri til stigsmunur á fíkn þá væri kláði grunnstigið,“ segir Fríða sem segist hafa tekið til við að skrifa niður allt það sem hana klæjaði undan. Í einni sögunni, Sumar konur, hefur ung kona sig til á djammið. Sagan er blæbrigðarík og sveiflast úr angist og tilgangsleysi í ölvaða gleði. Er í alvörunni hægt að búa til hársprey úr vodka og piparmyntuolíu? spyr blaðamaður og vitnar í smásöguna. „Það stendur á netinu!“ segir Fríða og hlær og segir söguna alls ekki tilkomna úr eigin lífi og háttum. „En þær fjalla samt um ungt fólk og veruleika þess.“ Eldri kynslóðin virðist hins vegar líka finna sig í þeim. Kom það þér á óvart? „Já, það kom mér mjög mikið á óvart. Ég fékk góðan meðbyr með minni fyrstu ljóðabók og bjóst við að næsta bók fengi ekki jafn góðar viðtökur. Svona eins og það væri óskrifaða reglan,“ segir hún og brosir út í annað. „Svona „my shitty second“. Það er gott að fá viðbrögð og það er bæði gaman og spennandi að taka þátt í jólabókavertíðinni. En það er líka slítandi,“ segir hún. „Þetta er ansi langt tímabil, ef við værum heiðarleg gagnvart jólunum myndum við hefja jólavertíðina á fyrsta í aðventu en ekki í október. Þessi jólavertíð er meira en einn vikudagur af ævi okkar. Maður fær eiginlega alveg nóg af sér. Nú þegar ég er í annað skipti að gefa út bók fyrir jól þá finnst mér þetta, eins og Eva Rún Snorradóttir náði að orða svo vel: svolítið eins og að hoppa upp í rassgatið á sjálfum sér. Auðvitað er fólk áhugasamt og kurteist, fólk sem maður þekkir og vill tala um bókina og veita mér stuðning. En stundum fæ ég bara nóg og bið fólk sem ég er að hitta að tala um allt annað en bókina við mig. Get ekki meira af sjálfri mér,“ segir Fríða og hlær. „Ég er mikið afmælisbarn en ætla samt ekki að halda upp á afmælið mitt í ár. Ég gerði það heldur ekki í fyrra,“ segir Fríða. „En ég er að læra á þetta, vinna mér inn þrek fyrir vertíðina,“ segir hún. Konur með meira olnbogarými Hvað lest þú? Hvað finnst þér spennandi? „Ég les mikið af nýjum breskum og bandarískum verkum og reyni að lesa nýjar og spennandi þýðingar. Svo er ég alltaf að lesa íslenska höfunda. Koma mér upp minni eigin bókmenntagráðu.“ Greinir þú nýja stefnu eða tískustrauma? „Já, mér finnst verk höfunda vera að styttast. Setningar að styttast, prósinn að meitlast. Hann er myndrænni,“ segir Fríða og segist velta því fyrir sér hvort þessi þróun fylgi tækninni. „Mér finnst þetta áberandi hjá flottum kvenrithöfundum í Skandinavíu og Bandaríkjunum. Þær virðast fara eftir ráðum Sigurðar Pálssonar, að delete-takkinn er mikilvægasti takkinn. Ég er sannfærð um að þetta heldur áfram að þróast í þessa átt. Þegar tískustraumar koma þá verður til samtal, fólk fer að svara hvert öðru. Og í þessu samhengi finnst mér konur vera með meira olnbogarými til að skrifa til höfuðs „stóru skáldsögunni“. Mér finnst þetta allt saman mjög áhugavert.“ Sat í aftursætinu og las Fríða er alin upp í Kópavogi og áhugann á bókmenntum segir hún sjálfsprottinn. „Ég hef skrifað síðan ég var barn. Ég skil það varla ennþá af hverju ég varð svona mikill bókaormur. Í Kópavogi snerist allt um fimleika og fótbolta og foreldrar mínir héldu ekki mikið að mér bókum. Pabbi er ljósmyndari, ferðaðist oft um landið með hópi náttúruljósmyndara. Hann tók mig oft með í þessar ferðir þegar ég var lítil og ég sat í aftursætinu og las. Kannski kviknaði áhuginn þar.“ Fríða stundaði nám í heimspeki við Háskóla Íslands og seinna meistaranám í ritlist. Þar gafst henni færi á að koma skáldskapnum í farveg. „Ég skrifaði ljóðabók í menntaskóla, aðra í heimspekinámi og enn aðra í ritlist. Námið þótti mér gott. Í passlega stórum hópi fólks skapast traust. Þá lærir maður að vera heiðarlegur í skáldskapnum, gagnvart sér og öðrum. Maður er auðvitað með lífið í lúkunum þegar maður treystir öðrum fyrir því sem maður er að hugsa og skrifa.“ Brot úr smásögunni Viðtalið: Blaðið er ekki enn komið. Áttaumferðin er byrjuð að róast, eitt og eitt skólabarn flýtir sér framhjá glugganum. Kannski þrír tímar í birtingu. Ragga gengur aftur inn í eldhús, lækkar í útvarpinu og hellir meira vatni í tebollann, sest í eldhúskrókinn og hefur nýjan leik í Candy Crush. Hún spilar þar til lífin eru búin. Síðan fær hún sér annan tebolla, vinnur aðeins í silfrinu og hlustar á útvarpsþátt úr Sarpinum um gildishlaðin orð. Það á að breyta fóstureyðingu í þungunarrof. Þegar þættinum lýkur gáir hún fram í forstofu, opnar út og rýnir í myrkrið. Enginn á ferð nema tveir útlendingar að setja töskur inn í taxa. Klukkan rétt orðin níu. Hún færir sig inn í stofu og sest í stól. Vonar að hann muni ekki snjóa í dag ef ske kynni að blaðabunkinn stæði yfirgefinn úti á götuhorni. Það þyrfti ekki nema einn nágranna til að rífa upp plastið og þá væru öll blöðin ónýt. Hún opnar nýjan krimma, les fyrri helming blaðsíðunnar í þrígang, lokar bókinni, nær í samanvöðlaðan plastpoka undir vaskinum og bregður sér út fyrir á peysunni. Þarna eru blöðin, enn í plastinu. Það er frost, rétt undir tveimur gráðum í mínus, en hún stendur kyrr meðan hún flettir blaðinu, staðnæmist á heilsíðuviðtali og brosir í kampinn. Þegar hún er búin að skima yfir viðtalið breiðir hún Bónuspokann vandlega yfir bunkann. „Er eitthvað af viti í þessu?“ segir einhver fyrir aftan hana. Það er Þórlaug með terrier tíkina. „Viðtal við hann Halla. Þeir félagarnir voru að vinna frumkvöðlakeppni í útlöndum.“ Hún seilist í eintak handa Þórlaugu. „Hvaða leti er annars í þessum blaðbera? Er þetta ekki í þriðja eða fjórða skiptið í mánuðinum sem hann er veikur?“ „Eitthvað svoleiðis.“ „Annars les ég aldrei blöð núorðið. Það er ekkert í þessu. Kannski ein og ein almennileg stjörnugjöf á hálfs mánaðar fresti,“ segir hún. Tíkin þefar af blöðunum og gerir tilraun til að pissa á pokann. „Aska, nei,“ skipar Þórlaug, kippir í ólina og heldur göngunni áfram með blaðið klemmt undir öðrum handleggnum. „Þú skilar hamingjuóskum frá mér.“ Ragga hringir í son sinn eftir að hafa lesið fréttina og býður honum í kaffi eftir vinnu. Hann segist ætla að reyna að renna við. „Heldurðu að stelpurnar komi líka?“ „Ég heyri í Gígju og læt þig vita,“ andvarpar hann. Gígja er heima með þriggja mánaða stelpuna þeirra. Þau búa úti á Nesi. Barnabarnið er alnafna hennar, Ragnhildur Haraldsdóttir. Sumir segja að þær séu líkar. Augnsvipurinn og nefið. Hún ákveður að skella í kotasælubollur. Á meðan hugsar hún um viðbrögð Þórlaugar. Margir í götunni myndu eflaust muna eftir honum. Andskotans blaðberinn að vera veikur. Í gamla daga komst hún varla út í búð án þess að fá hrós frá nágranna um hversu myndarlegur og kurteis hann Haraldur væri. Hvað hann væri mikill karakter. Hún hallar sér að blaðinu og les bestu bútana aftur. Þau hjónin voru bæði komin yfir fertugt þegar hún varð ófrísk. Hún var hætt að kvíða blæðingunum, hætt að finna fyrir höggi vonbrigðanna þegar þær komu. Hafði ekki einu sinni tekið eftir fjarveru þeirra. Var komin fjóra mánuði á leið þegar óléttan uppgötvaðist. Við tóku mörg ár sem hún var ítrekað kölluð amma. Hún hætti að kippa sér upp við þetta eftir leikskólagönguna. Leiðrétti fólk ekki ef það vildi endilega hækka hana í fjölskyldutign. Hún skilur deigið eftir í vatnsbaði og breiðir viskustykki yfir. Opnar tölvuna og finnur símanúmerið hjá póstdreifingu Fréttablaðsins. „Góðan dag. Blaðið barst ekki til mín í morgun. Grenimel. Er nokkuð langt í þetta?“ Stúlkan lætur hana hinkra augnablik. Klukkubjöllur nágrannans af neðri hæðinni klingja tíu sinnum. Stúlkan kemur aftur í símann og segir að því miður séu óvenjumikil veikindaforföll í dag en afleysingafólk sé að keyra út um allan bæ í þessum töluðu orðum, blaðið verði líklega komið fyrir hádegi. En reyndar sé búið að dreifa blöðunum, bunkinn ætti að standa á götuhorni Grenimels og Hofsvallagötu. „Nú, já. Takk fyrir,“ segir hún og skellir á. Það er farið að birta af degi þó skýin liggi eins og þykkur potthlemmur yfir höfuðborginni. Hún hellir sér í þriðja tebollann og sest upp í sófa. Bókin heldur henni ágætlega við lesturinn og næst þegar hún lítur upp er orðið bjart. Enn bólar ekkert á blaðinu. Hún mótar bollur úr deiginu, lætur þær standa á eldavélinni í klukkutíma í viðbót. Á meðan fer hún inn í herbergi að vinna í silfrinu. Klukkan slær tólf. Skólabjöllurnar í Melaskóla hringja. Það byrjar að snjóa. Hún á sífellt erfiðara með að einbeita sér og er eirðarlaus í sætinu. Helvítis Fréttablaðið að vera frítt, annars myndi hún hringja aftur. Hringurinn sem hún er að smíða er flatur og breiður, með stórum ávölum tinnusteini, sem liggur á hömruðu krónublaði. Hann er afmælisgjöf til Gígju, sem verður þrítug í byrjun febrúar. Hálfeitt. Loksins heyrist ískra í póstlúgunni. „Mikið var,“ dæsir hún, leggur verkfærin frá sér og drífur sig fram í forstofu. Á dyramottunni liggur auglýsingabæklingur frá húsgagnaverslun í Grafarvogi. Hún opnar út á tröppur og sér að bunkinn og Bónuspokinn eru á sínum stað. Annar leigubíll beygir inn í götuna og hún mætir augnaráði bílstjórans þar sem hún stendur rytjuleg í gættinni. Hún flýtir sér að loka og skellir bollunum inn í ofn. Þetta eru engin smá verðlaun. 500.000 evrur. Hún pírir augun út um eldhúsgluggann og yfir á hús þingmannsins á móti. Hann myndi örugglega bregðast einhvern veginn við. Myndi jafnvel eigna sér smá hlut í Haraldi. Hún trommar fingrunum á eldhúsborðið. Þetta er hugsjónastarfsemi hjá strákunum. Öll sambönd kæmu sér vel. Nágrannar hennar eru upp til hópa efnað fólk. Þetta hlýtur að vekja eitthvert umtal. Hún ákveður að bíða eftir bollunum úr ofninum, fara í sund og ef bunkinn verður enn úti á horni í bakaleiðinni þá mun hún að minnsta kosti lauma blaði inn um lúgu þingmannsins. Birtist í Fréttablaðinu Bókmenntir Mest lesið Gellur tóku yfir Gamla bíó Lífið „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Hélt að hann væri George Clooney Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Frægar í fantaformi Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Lífið Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira
Fríða Ísberg fær sér svart kaffi og smjördeigshorn. Skjannahvít birtan af jólakettinum lýsir upp Lækjartorg. Fyrir framan hann stendur fjöldi ferðamanna og hlustar agndofa á lýsingar leiðsögumanns á blóðþorsta kattarins og lyst hans á illa búnum börnum. „Ég vann hér einu sinni,“ segir hún og lítur í kringum sig á kaffihúsinu. „En það er allt breytt. Það var fyrir sex árum síðan,“ segir Fríða. Sögur Fríðu í smásagnasafninu Kláða þykja fullar innsæis og djarfar. Hún hefur áður sent frá sér ljóðabókina Slitförin sem hlaut mjög góðar viðtökur og var meðal annars tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2018. Fast í pattstöðu Er einhver sameiginlegur þráður í sögunum? „Ég vann í upphafi með fimm sögur og tók þá eftir að í þeim var sameiginlegur þráður. Það var eitthvað að. Ég fann ekki orð yfir það strax. Fólk var fast í pattstöðu, verkjaði undan einhverju en sótti í það á sama tíma. Ástand sem er vægara en fíkn. Ef það væri til stigsmunur á fíkn þá væri kláði grunnstigið,“ segir Fríða sem segist hafa tekið til við að skrifa niður allt það sem hana klæjaði undan. Í einni sögunni, Sumar konur, hefur ung kona sig til á djammið. Sagan er blæbrigðarík og sveiflast úr angist og tilgangsleysi í ölvaða gleði. Er í alvörunni hægt að búa til hársprey úr vodka og piparmyntuolíu? spyr blaðamaður og vitnar í smásöguna. „Það stendur á netinu!“ segir Fríða og hlær og segir söguna alls ekki tilkomna úr eigin lífi og háttum. „En þær fjalla samt um ungt fólk og veruleika þess.“ Eldri kynslóðin virðist hins vegar líka finna sig í þeim. Kom það þér á óvart? „Já, það kom mér mjög mikið á óvart. Ég fékk góðan meðbyr með minni fyrstu ljóðabók og bjóst við að næsta bók fengi ekki jafn góðar viðtökur. Svona eins og það væri óskrifaða reglan,“ segir hún og brosir út í annað. „Svona „my shitty second“. Það er gott að fá viðbrögð og það er bæði gaman og spennandi að taka þátt í jólabókavertíðinni. En það er líka slítandi,“ segir hún. „Þetta er ansi langt tímabil, ef við værum heiðarleg gagnvart jólunum myndum við hefja jólavertíðina á fyrsta í aðventu en ekki í október. Þessi jólavertíð er meira en einn vikudagur af ævi okkar. Maður fær eiginlega alveg nóg af sér. Nú þegar ég er í annað skipti að gefa út bók fyrir jól þá finnst mér þetta, eins og Eva Rún Snorradóttir náði að orða svo vel: svolítið eins og að hoppa upp í rassgatið á sjálfum sér. Auðvitað er fólk áhugasamt og kurteist, fólk sem maður þekkir og vill tala um bókina og veita mér stuðning. En stundum fæ ég bara nóg og bið fólk sem ég er að hitta að tala um allt annað en bókina við mig. Get ekki meira af sjálfri mér,“ segir Fríða og hlær. „Ég er mikið afmælisbarn en ætla samt ekki að halda upp á afmælið mitt í ár. Ég gerði það heldur ekki í fyrra,“ segir Fríða. „En ég er að læra á þetta, vinna mér inn þrek fyrir vertíðina,“ segir hún. Konur með meira olnbogarými Hvað lest þú? Hvað finnst þér spennandi? „Ég les mikið af nýjum breskum og bandarískum verkum og reyni að lesa nýjar og spennandi þýðingar. Svo er ég alltaf að lesa íslenska höfunda. Koma mér upp minni eigin bókmenntagráðu.“ Greinir þú nýja stefnu eða tískustrauma? „Já, mér finnst verk höfunda vera að styttast. Setningar að styttast, prósinn að meitlast. Hann er myndrænni,“ segir Fríða og segist velta því fyrir sér hvort þessi þróun fylgi tækninni. „Mér finnst þetta áberandi hjá flottum kvenrithöfundum í Skandinavíu og Bandaríkjunum. Þær virðast fara eftir ráðum Sigurðar Pálssonar, að delete-takkinn er mikilvægasti takkinn. Ég er sannfærð um að þetta heldur áfram að þróast í þessa átt. Þegar tískustraumar koma þá verður til samtal, fólk fer að svara hvert öðru. Og í þessu samhengi finnst mér konur vera með meira olnbogarými til að skrifa til höfuðs „stóru skáldsögunni“. Mér finnst þetta allt saman mjög áhugavert.“ Sat í aftursætinu og las Fríða er alin upp í Kópavogi og áhugann á bókmenntum segir hún sjálfsprottinn. „Ég hef skrifað síðan ég var barn. Ég skil það varla ennþá af hverju ég varð svona mikill bókaormur. Í Kópavogi snerist allt um fimleika og fótbolta og foreldrar mínir héldu ekki mikið að mér bókum. Pabbi er ljósmyndari, ferðaðist oft um landið með hópi náttúruljósmyndara. Hann tók mig oft með í þessar ferðir þegar ég var lítil og ég sat í aftursætinu og las. Kannski kviknaði áhuginn þar.“ Fríða stundaði nám í heimspeki við Háskóla Íslands og seinna meistaranám í ritlist. Þar gafst henni færi á að koma skáldskapnum í farveg. „Ég skrifaði ljóðabók í menntaskóla, aðra í heimspekinámi og enn aðra í ritlist. Námið þótti mér gott. Í passlega stórum hópi fólks skapast traust. Þá lærir maður að vera heiðarlegur í skáldskapnum, gagnvart sér og öðrum. Maður er auðvitað með lífið í lúkunum þegar maður treystir öðrum fyrir því sem maður er að hugsa og skrifa.“ Brot úr smásögunni Viðtalið: Blaðið er ekki enn komið. Áttaumferðin er byrjuð að róast, eitt og eitt skólabarn flýtir sér framhjá glugganum. Kannski þrír tímar í birtingu. Ragga gengur aftur inn í eldhús, lækkar í útvarpinu og hellir meira vatni í tebollann, sest í eldhúskrókinn og hefur nýjan leik í Candy Crush. Hún spilar þar til lífin eru búin. Síðan fær hún sér annan tebolla, vinnur aðeins í silfrinu og hlustar á útvarpsþátt úr Sarpinum um gildishlaðin orð. Það á að breyta fóstureyðingu í þungunarrof. Þegar þættinum lýkur gáir hún fram í forstofu, opnar út og rýnir í myrkrið. Enginn á ferð nema tveir útlendingar að setja töskur inn í taxa. Klukkan rétt orðin níu. Hún færir sig inn í stofu og sest í stól. Vonar að hann muni ekki snjóa í dag ef ske kynni að blaðabunkinn stæði yfirgefinn úti á götuhorni. Það þyrfti ekki nema einn nágranna til að rífa upp plastið og þá væru öll blöðin ónýt. Hún opnar nýjan krimma, les fyrri helming blaðsíðunnar í þrígang, lokar bókinni, nær í samanvöðlaðan plastpoka undir vaskinum og bregður sér út fyrir á peysunni. Þarna eru blöðin, enn í plastinu. Það er frost, rétt undir tveimur gráðum í mínus, en hún stendur kyrr meðan hún flettir blaðinu, staðnæmist á heilsíðuviðtali og brosir í kampinn. Þegar hún er búin að skima yfir viðtalið breiðir hún Bónuspokann vandlega yfir bunkann. „Er eitthvað af viti í þessu?“ segir einhver fyrir aftan hana. Það er Þórlaug með terrier tíkina. „Viðtal við hann Halla. Þeir félagarnir voru að vinna frumkvöðlakeppni í útlöndum.“ Hún seilist í eintak handa Þórlaugu. „Hvaða leti er annars í þessum blaðbera? Er þetta ekki í þriðja eða fjórða skiptið í mánuðinum sem hann er veikur?“ „Eitthvað svoleiðis.“ „Annars les ég aldrei blöð núorðið. Það er ekkert í þessu. Kannski ein og ein almennileg stjörnugjöf á hálfs mánaðar fresti,“ segir hún. Tíkin þefar af blöðunum og gerir tilraun til að pissa á pokann. „Aska, nei,“ skipar Þórlaug, kippir í ólina og heldur göngunni áfram með blaðið klemmt undir öðrum handleggnum. „Þú skilar hamingjuóskum frá mér.“ Ragga hringir í son sinn eftir að hafa lesið fréttina og býður honum í kaffi eftir vinnu. Hann segist ætla að reyna að renna við. „Heldurðu að stelpurnar komi líka?“ „Ég heyri í Gígju og læt þig vita,“ andvarpar hann. Gígja er heima með þriggja mánaða stelpuna þeirra. Þau búa úti á Nesi. Barnabarnið er alnafna hennar, Ragnhildur Haraldsdóttir. Sumir segja að þær séu líkar. Augnsvipurinn og nefið. Hún ákveður að skella í kotasælubollur. Á meðan hugsar hún um viðbrögð Þórlaugar. Margir í götunni myndu eflaust muna eftir honum. Andskotans blaðberinn að vera veikur. Í gamla daga komst hún varla út í búð án þess að fá hrós frá nágranna um hversu myndarlegur og kurteis hann Haraldur væri. Hvað hann væri mikill karakter. Hún hallar sér að blaðinu og les bestu bútana aftur. Þau hjónin voru bæði komin yfir fertugt þegar hún varð ófrísk. Hún var hætt að kvíða blæðingunum, hætt að finna fyrir höggi vonbrigðanna þegar þær komu. Hafði ekki einu sinni tekið eftir fjarveru þeirra. Var komin fjóra mánuði á leið þegar óléttan uppgötvaðist. Við tóku mörg ár sem hún var ítrekað kölluð amma. Hún hætti að kippa sér upp við þetta eftir leikskólagönguna. Leiðrétti fólk ekki ef það vildi endilega hækka hana í fjölskyldutign. Hún skilur deigið eftir í vatnsbaði og breiðir viskustykki yfir. Opnar tölvuna og finnur símanúmerið hjá póstdreifingu Fréttablaðsins. „Góðan dag. Blaðið barst ekki til mín í morgun. Grenimel. Er nokkuð langt í þetta?“ Stúlkan lætur hana hinkra augnablik. Klukkubjöllur nágrannans af neðri hæðinni klingja tíu sinnum. Stúlkan kemur aftur í símann og segir að því miður séu óvenjumikil veikindaforföll í dag en afleysingafólk sé að keyra út um allan bæ í þessum töluðu orðum, blaðið verði líklega komið fyrir hádegi. En reyndar sé búið að dreifa blöðunum, bunkinn ætti að standa á götuhorni Grenimels og Hofsvallagötu. „Nú, já. Takk fyrir,“ segir hún og skellir á. Það er farið að birta af degi þó skýin liggi eins og þykkur potthlemmur yfir höfuðborginni. Hún hellir sér í þriðja tebollann og sest upp í sófa. Bókin heldur henni ágætlega við lesturinn og næst þegar hún lítur upp er orðið bjart. Enn bólar ekkert á blaðinu. Hún mótar bollur úr deiginu, lætur þær standa á eldavélinni í klukkutíma í viðbót. Á meðan fer hún inn í herbergi að vinna í silfrinu. Klukkan slær tólf. Skólabjöllurnar í Melaskóla hringja. Það byrjar að snjóa. Hún á sífellt erfiðara með að einbeita sér og er eirðarlaus í sætinu. Helvítis Fréttablaðið að vera frítt, annars myndi hún hringja aftur. Hringurinn sem hún er að smíða er flatur og breiður, með stórum ávölum tinnusteini, sem liggur á hömruðu krónublaði. Hann er afmælisgjöf til Gígju, sem verður þrítug í byrjun febrúar. Hálfeitt. Loksins heyrist ískra í póstlúgunni. „Mikið var,“ dæsir hún, leggur verkfærin frá sér og drífur sig fram í forstofu. Á dyramottunni liggur auglýsingabæklingur frá húsgagnaverslun í Grafarvogi. Hún opnar út á tröppur og sér að bunkinn og Bónuspokinn eru á sínum stað. Annar leigubíll beygir inn í götuna og hún mætir augnaráði bílstjórans þar sem hún stendur rytjuleg í gættinni. Hún flýtir sér að loka og skellir bollunum inn í ofn. Þetta eru engin smá verðlaun. 500.000 evrur. Hún pírir augun út um eldhúsgluggann og yfir á hús þingmannsins á móti. Hann myndi örugglega bregðast einhvern veginn við. Myndi jafnvel eigna sér smá hlut í Haraldi. Hún trommar fingrunum á eldhúsborðið. Þetta er hugsjónastarfsemi hjá strákunum. Öll sambönd kæmu sér vel. Nágrannar hennar eru upp til hópa efnað fólk. Þetta hlýtur að vekja eitthvert umtal. Hún ákveður að bíða eftir bollunum úr ofninum, fara í sund og ef bunkinn verður enn úti á horni í bakaleiðinni þá mun hún að minnsta kosti lauma blaði inn um lúgu þingmannsins.
Birtist í Fréttablaðinu Bókmenntir Mest lesið Gellur tóku yfir Gamla bíó Lífið „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Lífið Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Hélt að hann væri George Clooney Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Frægar í fantaformi Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Draumaherbergi hjá fimmtugri og fabjúlöss Lífið Fleiri fréttir Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Sjá meira