Graphic News, Archaeology og fleiri miðlar hafa tekið saman nokkra af merkustu fornleifafundum ársins 2018. Listinn að neðan er að sjálfsögðu á engan hátt tæmandi en þar má sjá nokkra af merkustu fornleifafundum nýliðins árs.

Jórdanía: Fornaldarpítubakstur
Leifar af um 14 þúsund ára gömlu brenndu brauði fundust í eldstæði í Svörtu eyðimörkinni í norðausturhluta Jórdaníu á nýliðnu ári.Fornleifafræðingar á vegum Kaupmannahafnaarháskóla fundu leifarnar sem benda til að fólk Natufian-menningarinnar sem þar var uppi hafi bakað brauð, um fjögur þúsund árum fyrir sem kallað hefur verið upphaf landbúnaðar.
Brauðið er sagt líkjast pítubrauði og búið til úr mjöli unnið úr villtu korni og hnýði papýrusreyrs.

Suður-Afríka: Elsta teikningin
Teiknaðar rendur, sem taldar eru 73 þúsund ára gamlar, fundust á steini í Blombos-hellunum í Suður-Afríku á nýliðnu ári.Rendurnar voru teiknaðar með rauðu okkri og er elsta teikning eftir mannfólk sem vitað er um. Teikningarnar eru um 30 þúsund árum eldri en sú sem áður var talin elst.

Ítalía: Hestur sem átti að bjarga íbúum Pompeii undan gosinu
Steingerðar leifar af hræi hests sem enn er með aktygi fundust í rústum húss utan veggja ítölsku borgarinnar Pompeii á árinu.Pompeii fór í eyði árið 79 eftir Krist eftir að eldgos í fjallinu Vesúvíus lagði borgina í rúst.
Hesturinn var með hnakk og söðul og tilbúinn til brottfarar en mögulega átti að nota hann til þess að bjarga íbúum Pompeii sem voru á flótta undan gosinu.

Egyptaland: Leyndarmál múmía afhjúpuð
Verkstæði fyrir líksmurningar og grafir frá tímabilinu milli 664 til 404 fyrir Krist fundust nærri Saqqara greftrunarsvæðinu.Svæðið er suður af egypsku höfuðborginni Kaíró.
Fundurinn er talinn veita ómetanlegar upplýsingar um líksmurningarferli fyrri tíma.
Gullhúðuð silfurgríma fannst ásamt hundruð öðrum munum á staðnum.
Gríman er einungis önnur slíkrar tegundar sem fundist hefur.

Grikkland: Elsta ritaða brotið úr Ódysseifskviðu
Leirtafla sem fannst nærri rústum Seifshofs í Ólympíu í Grikklandi kann að innihalda elsta ritaða eintak af broti úr Ódysseifskviðu Hómers.Á töflunni er að finna þrettán erindi kviðunnar sem Hómer samdi seint á áttundu öld fyrir Krist. Talið er að leirtaflan sé frá þriðju öld eftir Krist.

Búlgaría: Elsta óskemmda skipsflak heims
Rúmlega 2.400 ára gamalt grískt verslunarskip fannst á botni Svartahafs, undan strönd Búlgaríu, á árinu.Flak skipsins, sem er um 23 metra langt, er nær óskemmt eftir að hafa hvílt í nær súrefnislausu vatni um aldir.
Sviss: Dularfull bronshönd
Bronshönd með gylltri ermalíningu, talin 3.500 ára gömul, fannst við uppgröft nærri Bielvatni í Sviss.Talið er að um elstu eftirlíkingu úr málmi af hluta mannslíkama sé að ræða sem fundist hafi í Evrópu.
Fundurinn þykir mjög óvenjulegur og kann að hafa verið hluti af veldissprota eða heilli styttu.
