Í minnisblaðinu bendir Hallur Símonarson innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar á að fram komi í braggaskýrslunni að farið hafi fram „tiltekt í tölvupósthólfum.“ Það geti falið í sér að tölvupóstar hafi verið færðir í skjalavörslukerfi eða að þeim hafi verið eytt varanlega.
Sjá einnig: „Minnihlutinn heldur áfram að tefja og afvegaleiða umræðuna með popúlisma og rangfærslum“
Þetta er útskýrt frekar í minnisblaðinu. Í tilefni af rannsókn á framkvæmdum við braggann að Nauthólsvegi 100 hafi innri endurskoðun kallað eftir afriti af tölvupósthólfum verkefnastjóra hjá Skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar og fyrrverandi skrifstofustjóra skrifstofunnar. Komið hafi í ljós að í afritunum er ekki að finna alla tölvupósta viðkomandi aðila á tímabilinu frá árinu 2012 til október ársins 2017.

Sérstaklega er tekið fram í minnisblaðinu að þó að tölvupóstum hafi verið eytt skuli varast að túlka það svo að þeim hafi verið eytt í annarlegum tilgangi, einkum í ljósi þess að í reglum um tölvunotkun Reykjavíkurborgar segir að starfsmönnum beri að taka til í tölvupósthólfum sínum.
Eins og áður segir hefur meirihluta og minnihluta í borgarstjórn greint á um þessi atriði Braggaskýrslunnar. Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og forseti borgarstjórnar, hélt því til að mynda fram í Silfrinu á RÚV um helgina að tölvupóstum vegna Braggamálsins hafi ekki verið eytt.
Eyþór Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er á meðal þeirra sem hefur haldið því fram að lög um skjalavörslu hafi verið brotin þegar tölvupóstum í braggamálinu hafi verið eytt. Dóru og Eyþór virðist enn greina á um málið en þau ræða það sín á milli í athugasemdum við Facebook-færslu þeirrar fyrrnefndu um tölvupóstana sem sjá má hér að neðan. Þar krefur Eyþór Dóru m.a. um afsökunarbeiðni vegna ummæla hennar í Silfrinu, ræðu á borgarstjórnarfundi og greinar sem hún skrifaði í Fréttablaðið um braggamálið.