Það varð raunar uppnám í morgun þegar Bergþór Ólason birtist á ný sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar eftir tveggja mánaða hlé.
„Það kom vægast sagt flatt upp á okkur,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Það hafa verið, eins og menn vita, væringar út af þessu svokallaða Klaustursmáli og það endurspeglaðist á þessum fundi. En við leystum það okkar á milli,“ sagði Jón Gunnarsson, varaformaður nefndarinnar.
Bergþór Ólason kvaðst virða skoðanir annarra.
„En nú er það verkefni mitt að ávinna mér það traust, sem ég hef tapað, með góðri framgöngu hér eftir,“ sagði Bergþór.

„Þetta er tímamótaskref. Við erum að afgreiða hér samgönguáætlun sem er lítið breytt frá því sem ráðherra lagði fram í haust. En viðaukinn við hana er sá að við leggjum til að farið verði í vegtollaframkvæmdir,“ segir Jón og vonast til að sérstakt lagafrumvarp samgönguráðherra um veggjöldin verði samþykkt fyrir vorið.
„Ég hef efasemdir um veggjöld eins og þau eru lögð fram í þessari samgönguáætlun og fyrirhuguð eru,“ segir Rósa Björk, sem gerir fyrirvara á nefndaráliti meirihlutans.
„Þetta eru ekki réttu vinnubrögðin til að koma þeim á, þessum grundvallarbreytingum í fjármögnun á samgöngukerfinu. Okkur þykir hlutur höfuðborgarinnar og suðvesturhornsins mjög fyrir borð borinn í þessu öllu saman,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
„Þær eru allsendis óútfærðar og munu ekki leggjast jafnt á íbúa landsins,“ segir Helga Vala.

„Og það er bara skylda okkar þingmanna að leita annarra leiða,“ segir Bergþór en segist þó hafa þann fyrirvara á að dregið verði úr annarri gjaldtöku á bíla að hluta á móti.
„Síðan þarf að samþykkja hér nýja samgönguáætlun með tilliti til þessa næsta haust. Þá verður auðvitað til ráðstöfunar mikið viðbótarfjármagn. Þá þurfum við að raða því niður á verkefni, hér innan höfuðborgarsvæðisins sem og annarsstaðar,“ segir Jón Gunnarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: