Í viðtali í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sendur verður út í kvöld heldur Gunnar Bragi þessu fram. Kjarninn segir frá ummælum utanríkisráðherranns fyrrverandi sem hafði sig einna mest frammi í óviðeigandi ummælum um stjórnmálakonur sem náðust á upptöku á Klaustri.
„Það sem situr einna verst í mér eftir þetta kvöld er í fyrsta lagi það að muna ekki neitt frá því að ég kem inn á barinn og einum og hálfum sólarhring eftir. Það er algjört „blackout“. Algjört minnisleysi. Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upptökurnar, ég týndi fötunum mínum þessa nótt. Það er algjört „blackout“. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti því fyrir mér hvað í fjandanum gengur á þarna,“ segir Gunnar Bragi í þættinum.
Fullyrti hann að hann hefði ekki smakkað áfengi frá 20. nóvember því hann vilji „komast að því hvað gerðist þarna áður en einhver önnur skref eru tekin“.
Bergþór Ólason, samflokksmaður Gunnars Braga sem einnig heyrðist á Klaustursupptökunum, sagðist hafa átt viðtöl við áfengisráðgjafa. Niðurstaðan hafi verið sú að hann væri ekki áfengissjúklingur en hann hefði engu að síður sett sjálfan sig í „ótímabundið áfengisleyfi“.
„Ég taldi það bara ekki réttlætanlegt, og við erum búin að ræða það mikið inni á þingi undanfarna mánuði, að á meðan að 600 manns eru á biðlista hjá SÁÁ þá ætla ég ekki að fara í meðferð til að haka við einhver box,“ segir Bergþór í þættinum.
Gunnar Bragi og Bergþór tóku sæti á Alþingi í dag eftir launalaust leyfi sem þeir tóku sér í desember þegar ummæli af Klaustri birtust í fjölmiðlum.
Vísir reyndi að ná tali af Gunnari Braga í kvöld en án árangurs.